144. löggjafarþing — þingsetningarfundur

afsal þingmennsku.

[14:36]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseta hefur borist svohljóðandi bréf frá Árna Þór Sigurðssyni, 8. þm. Reykv. n., þar sem hann segir af sér þingmennsku frá og með 18. ágúst 2014:

„Með bréfi þessu segi ég af mér sem alþingismaður frá og með deginum í dag að telja þar sem ég mun á næstunni taka við starfi sendiherra í utanríkisþjónustunni. Við þessi tímamót færi ég alþingismönnum þakkir fyrir samstarfið síðan ég var kosinn fyrst á Alþingi fyrir rúmum sjö árum, 2007. Enn fremur þakka ég starfsfólki þingsins fyrir ómetanlega aðstoð við mig í störfum mínum sem alþingismaður undanfarin ár. Þótt oft sé tekist á harkalega í umræðum á Alþingi og stormasamt með köflum stendur upp úr vinátta og trúnaður þeirra fjölmörgu sem ég hef öðlast í stjórnmálastarfi undanfarna tvo áratugi.

Ég óska alþingismönnum og starfsfólki Alþingis farsældar í störfum og læt jafnframt í ljós þá einlægu ósk að Alþingi eflist á komandi árum og gegni með vaxandi reisn mikilvægu hlutverki sínu í samfélaginu sem æðsta og elsta stofnun þjóðarinnar.

Virðingarfyllst,

Árni Þór Sigurðsson,

8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður.“

Við afsögn Árna Þórs Sigurðssonar tekur Steinunn Þóra Árnadóttir sæti hans á Alþingi og verður 8. þm. Reykv. n. Steinunn Þóra hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðin velkomin til starfa á ný.

Við afsögn Árna Þórs Sigurðssonar færi ég honum fyrir hönd Alþingis alúðarþakkir fyrir störf hans í þágu Alþingis á undangengnum árum sem alþingismaður, einn af varaforsetum Alþingis, formaður þingflokks og formaður utanríkismálanefndar. Við kveðjum góðan samstarfsmann og ötulan þingmann með árnaðaróskum okkar allra honum og fjölskyldu hans til handa á nýjum starfsvettvangi.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að ganga fremstan með mér úr salnum til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 16.