144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna með þessu fjárlagafrumvarpi og þakka honum líka fyrir að vera mjög hreinskilinn með það að vissulega er hér hugmyndafræðilegur ágreiningur uppi. Um það snýst þessi umræða auðvitað að stóru leyti. Það hefur orðið stefnubreyting, hún varð strax með síðustu fjárlögum þar sem farið var út í þá aðgerð að veikja tekjustofna ríkisins og beita auknum niðurskurði, meira í ætt við það sem við höfum séð í ríkjum Evrópu til að mynda eftir að kreppan skall þar á, þ.e. beita hörðum niðurskurði í stað þess að styrkja tekjustofnana.

Það er mín afstaða og okkar að tekjustofnarnir hafi verið orðnir allt of veikir hér á landi fyrir hrun og það hafi verið ein ástæða þess að heldur erfiðara varð að bregðast við áfallinu sem þá skall yfir en ella, m.a. með þeim skattbreytingum sem síðasta ríkisstjórn réðst í, af því að búið var að fletja út skattkerfið í anda þeirrar frjálshyggju sem ég tel að einkenni þetta frumvarp eins og hið síðasta.

Við hæstv. fjármálaráðherra höfum átt talsvert samtal um hlutföll samneyslunnar og ég vil ítreka það sem kom fram í andsvari mínu áðan að það kemur fram í sjálfu frumvarpinu á bls. 90–91 að útgjaldahlutfallið sem stefnt er að sé lágt í sögulegu samhengi og verði varla lækkað frekar nema með endurskoðun á þjónustuhlutverki ríkisins og helstu bótakerfum, þ.e. að á árinu 2018 verð samneyslan hér orðin svo lág að varla verði hægt að standa undir velferðarkerfi af því tagi sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta birtist meðal annars í því sem ég gerði líka að umtalsefni áðan í andsvari, þ.e. greiðsluþátttöku sjúklinga sem ég tek fram að hefur aukist, líka í tíð síðustu ríkisstjórnar sem er umhugsunarefni fyrir okkur sem þar sátum. Ég tel að við eigum að stefna að því að draga úr þessari greiðsluþátttöku og færa hana meira til samræmis við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Við erum ekki að gera það með þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er kannski stóra spurningin sem við ættum að vera að ræða, af því að fjárlögin sýna forgangsröðun ríkisstjórnar á hverjum tíma: Hvernig er fjármunum varið? Þær breytingar sem er verið að gera hér fella niður auðlegðarskattinn og ég vil taka það fram, af því að hæstv. ráðherra nefndi áðan að ýmsir aðilar væru að greiða þann skatt sem væru í raun ekki aflögufærir, að það kom líka algjörlega skýrt fram fyrir síðustu kosningar, ég held að allir aðilar hafi verið reiðubúnir að endurskoða þetta fyrirkomulag. Það er alveg rétt að þessi skattur var settur á tímabundið og ég hef sagt að ég hef verið reiðubúin að endurskoða fyrirkomulagið. Það breytir því ekki að mér finnst eðlilegt að þeir sem mestar eignir eiga leggi líka af þeim í formi einhvers konar auðlegðarskatts, enda þegar gögn eru skoðuð um tekjubilið í samfélaginu kemur það fram, bæði hér á landi sem alþjóðlega, að þeir sem mestar tekjur hafa eru þeir sem hafa þær tekjur af eignum sínum, fjármagnstekjur af auðmagninu sem þeir búa yfir. Það er ríkasti hópurinn í samfélögum dagsins í dag og það er eðlilegt að sá hópur sé skoðaður sérstaklega með tilliti til skattlagningar, að hann leggi sérstaklega af mörkum til samfélagsins. Mér finnst raunar eðlilegt að það sé gert þvert á landamæri því að við vitum líka að þeir sem búa yfir mesta fjármagninu geyma það ekki endilega hér á landi.

Ég vildi heyra hæstv. ríkisstjórn reifa slíkar hugmyndir því að þarna eru stóru peningarnir og sá hagvöxtur sem við sjáum fram á hér á Íslandi, mér finnst það vera hlutverk okkar að hann dreifist jafnt á alla og það sé ekki aðeins efsta lagið sem taki þann hagvöxt til sín.

Auðlegðarskatturinn var tilraun til þess að skattleggja þennan eignamesta hóp. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, er sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða fyrirkomulagið þannig að ekki sé verið að hafa af ekkjunni eyrinn, en við vitum líka, og hæstv. fjármálaráðherra veit það vel þótt hann taki það ekki fram í andsvörum sínum, að þarna er líka margt stóreignafólk sem er vel aflögufært í þennan skatt sem skilaði ríkinu 10 milljörðum kr. á síðasta ári.

Síðan eru það auðvitað veiðigjöldin. Ég hef rætt svo oft um þau að ég ætla ekki að nota þessar örfáu mínútur hér til þess að ræða sérstaklega um veiðigjöldin en vek þó athygli á því að þau eru lækkuð enn frekar samkvæmt þessu frumvarpi þannig að hér erum við með þessar skýru áherslur á að létta byrðum af stóreignafólki og útgerðinni í landinu.

Síðan er það matarskatturinn og menningin, tónlistin og bækurnar. Ég vil vekja athygli, bara svo ég gleymi því ekki, hæstv. fjármálaráðherra á því að langflest Evrópuríki hafa farið þá leið að taka bækur út fyrir sviga, skattleggja þær ekki neitt af því að það er niðurstaða langflestra stjórnvalda í Evrópu að bókaútgáfa sé einn lykilþáttur í því að viðhalda tungumáli. Á Íslandi erum við rúmlega 300 þús. manns sem tölum íslensku. Ég hef heyrt marga hv. þingmenn úr öllum flokkum lýsa yfir áhyggjum af stöðu íslenskrar tungu og við höfum samþykkt aðgerðaáætlun um eflingu íslenskrar tungu í stafrænu umhverfi, að vísu sér þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu, það er ekki króna sett í þá áætlun sem hér var samþykkt í samhljómi allra þingmanna, en ég treysti því að því verði breytt í meðförum þingsins.

Ég skil hreinlega ekki að ríkisstjórnin endurskoði ekki afstöðu sína til þessa máls því að íslenskan á svo sannarlega í vök að verjast og það er niðurstaða, eins og ég segi, langflestra Evrópuþjóða að ein leið til að styrkja málumhverfið sé að setja virðisaukaskatt á bækur í 0.

Síðan komum við að matvælunum. Gott og vel, það er sjálfsagt og eðlilegt að skoða þær ábendingar sem hæstv. ráðherra hefur sett fram um að virðisaukaskattur sé ekki endilega besta leiðin til að jafna stöðu fólks í samfélaginu. Þess vegna tek ég eftir því þegar hæstv. ráðherra segir að hann sé reiðubúinn að taka undir það að áhrif þessa fjárlagafrumvarps verði skoðuð á mismunandi tekjuhópa. Það er mjög mikilvægt að það verði gert, það er krafa okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þessi fjárlög verði greind út frá áhrifum þeirra á mismunandi tekjuhópa.

Það breytir þó ekki því að verið er að tala um að hækka skattinn á nauðsynjavörurnar, á matvælin, og sama hvernig við horfum á það, ég tek undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni sem hér talaði áðan, eru þetta tvímælalaust mestu nauðsynjavörurnar sem við getum fundið, matvælin. Þó að við viljum öll eiga þvottavél, eins og hæstv. ráðherra nefndi, eru matvæli samt hluti af grunnþörfum mannsins.

Mig langar að ræða aðeins aftur um velferðarkerfið, ekki aðeins um greiðsluþátttöku sjúklinga heldur líka þá staðreynd að miðað við framtíðaráform er mjög lítið borð fyrir báru til uppbyggingar innviða. Það er ekkert borð fyrir báru til að mynda til að byggja hér nýjan spítala sem þó hefur verið rætt talsvert um á Alþingi. Ég hefði mikinn áhuga á því að heyra eitthvað um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, hvernig nákvæmlega hæstv. ríkisstjórn sér fyrir sér að hún ætli að greiða úr húsnæðisvanda Landspítalans. Ég þarf ekkert að fara yfir þá stöðu. Sá góði spítali er rekinn á að mig minnir 17 stöðum úti um alla borg og er húsnæðiskostnaður óviðunandi. Það er verið að ráðast í viðhald á spítalanum án þess að fyrir liggi skýr framtíðarsýn um hvert eigi að fara. Það er eðlilegt að við biðjum um svör við því máli.

Mig langar líka að nefna smærri hluti sem mér finnst bera vott um ákveðna pólitík sem birtist í þessu fjárlagafrumvarpi. Hér hefur verið bent á að vörugjöld lækki af bifreiðum. Á meðan er skorið niður í almenningssamgöngum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi ekki loftslagsmál í gær sem þó er líklega eitt brýnasta viðfangsefni hæstv. ríkisstjórnar og okkar allra sem sitjum á Alþingi. Það er ekkert að sjá í fjárlagafrumvarpinu um það mál annað en að loftslagssjóðurinn er tekinn sem hefur verið fjármagnaður af mörkuðum tekjum. Hann er tekinn og settur inn í ríkissjóð, að vísu hefur ekki verið lagt fram lagafrumvarp til að gera þá breytingu. Svo sjáum við jú þá breytingu að bifreiðar lækka en skorið er niður til almenningssamgangna sem hefur verið ráðist í stórátak í á undanförnum árum með gríðarlega góðum árangri. Þar sem vel hefur tekist til er gríðarleg ánægja með þau mál.

Mér finnst birtast dapurleg forgangsröðun í umhverfismálum í þessu frumvarpi og er hluti af sama meiði.

Mig langar einnig að nefna að hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega háskólana, að verið væri að styrkja rekstrargrunn þeirra. Það er rétt, það er verið að endurskoða reikniflokka reiknilíkansins sem úthlutar fjármunum til háskóla, vinna sem hefur staðið lengi yfir og nokkrar breytingar verið gerðar í ýmsum fjárlagafrumvörpum síðustu ára, en þessar breytingar færa okkur ekki nær því markmiði sem við vorum líka mjög sammála um 2011 þegar við fögnuðum aldarafmæli Háskóla Íslands. Þær færa okkur mjög skammt í átt að því markmiði sem þá var einhugur um í þingsal, að íslenskir háskólar og framlög hins opinbera til þeirra — við ætluðum að reyna að komast fyrst á par við meðaltal OECD-ríkjanna sem við berum okkur saman við og síðan á par við meðaltal háskólastarfsemi á Norðurlöndunum. Við erum enn þá mjög fjarri því markmiði sem við settum okkur í áföngum til ársins 2020.

Það væri líka áhugavert að heyra hvernig nákvæmlega menn sjá fyrir sér þá hreyfingu því að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt.

Hæstv. ráðherra nefndi aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar. Ég fagna þeim, ég fagna þeim auknu framlögum. Ég vil samt minna á, ég get ekki annað en minnt á það, að síðasta ríkisstjórn lagði höfuðáherslu á aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar í fjárfestingaráætluninni þannig að þau voru hækkuð myndarlega árið 2013, voru þá komin allt of langt niður.

Síðasta ríkisstjórn ákvað að skera þau niður, bætti raunar einhverju smálegu í rannsóknasjóð fyrir mikinn atgang og atbeina stjórnarandstöðunnar í því máli og svo núna er gefið í. Þetta er dæmi um þau kollsteypustjórnmál sem við stöndum hérna í, þegar búið er að setja stefnuna og stefnumótun síðustu ríkisstjórnar byggði á, alveg eins og núna, samþykktri stefnumótun Vísinda- og tækniráðs um nauðsyn þess að auka fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun af því að það skilar árangri, ekki aðeins fyrir menntun í landinu, það skilar líka árangri fyrir samfélagið allt. Það skilar fjölbreyttara atvinnuumhverfi, það skilar aukinni hagsæld og velsæld. Samt var þetta skorið niður. Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi sem byggist á langtímaáætlunum, sem byggist á verkefnum til margra ára, að mega alltaf eiga von á því að þegar ný ríkisstjórn kemur sé öllu breytt, að við getum ekki einu sinni sameinast um þetta?

Ég ræddi þetta oft hérna í fyrra, ég fagna þessum framlögum núna, ég vona að við þurfum ekki að sjá fleiri svona kollsteypur í þeim málum sem einmitt þarf að hlúa að og hafa langtímastefnumótun í huga.

Nú er hæstv. forsætisráðherra auðvitað ekki hér, en hann fer með málefni gamalla húsa eins og kunnugt er, en ég velti fyrir mér hver hugsunin er með því að liður sem áður hét græna hagkerfið en heitir núna, ef ég man rétt, græna hagkerfið og vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar, sá liður liggur núna í 130 milljónum í þessu fjárlagafrumvarpi en á meðan er Húsafriðunarsjóður, sem er sá lögbundni sjóður sem fer með málefni húsafriðunar í landinu samkvæmt nýsamþykktum lögum um menningarminjar og menningarverðmæti sem voru samþykkt af fulltrúum allra flokka hér á Alþingi, snerist meðal annars um að gera fjárveitingar til þessara mála gagnsærri og faglegri, sá sjóður er hins vegar kominn úr 200 milljónum niður í 56 milljónir. Ég velti fyrir mér hvort fjárlögin, af því að við höfum ekki enn þá séð lagabreytingar, það er að vísu boðað frumvarp um vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar, mættu bara stefnubreytingu að þessu leyti, þ.e. í að hverfa frá því að Húsafriðunarsjóður sinni þessum málum og færa þetta í eitthvert annað fyrirkomulag.

Það er kannski enn eitt dæmið um að við horfum iðulega á í fjárlögum stefnubreytingar sem á eftir að ræða í lagaumhverfinu.

Síðan verð ég að nefna útvarpsgjaldið sem er boðað núna að lækki. Það er auðvitað ekki markað enn þá. Þar sker Ísland sig úr öðrum Evrópuríkjum sem öll reka almannaútvarp og öll eru þessi almannaútvörp með markaða tekjustofna. Finnar fóru þá leið sem við fórum og sneru af henni. Hið sama má segja um Hollendinga. Þetta hefur verið mikið rætt, að almannaútvarp verði að hafa markaðan tekjustofn. Nú segir ríkisstjórnin: Hann átti að vera markaður núna samkvæmt nýsamþykktum lögum um Ríkisútvarpið. Því er frestað um tvö ár og síðan sé ég að notað er tækifærið til þess að lækka útvarpsgjaldið og veikja þar með rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins sem mér skilst að þurfi á öllu sínu að halda.

Ég leyfi mér að gera athugasemd við þetta og hefði viljað sjá að þarna væri tækifærið nýtt til þess að marka þennan tekjustofn og tryggja þar með sjálfstæði almannaútvarpsins frá fjárlögum á hverjum tíma, að hafa langtímasýn fyrir almannaútvarpið sem við ætlumst til að gegni ákveðnu akkerishlutverki innan fjórða valdsins.

Þetta eru bæði stór atriði og smá og ég sé að tími minn líður hratt. Ég ítreka að ég tel að með þessum fjárlögum, eins og þeim síðustu, sé boðuð hugmyndafræðileg breyting, tekjustofnar veiktir, samneyslan á niðurleið. Það er ekki verið að nýta þá tekjustofna sem komið hefur verið á til þess að hefja hér uppbyggingu. Það er það sem ég hefði viljað sjá, þannig að við hefðum framtíðarsýn í því að við ætluðum að styrkja velferðarþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, háskólana til lengri tíma. Það er sú langtímahugsun sem ég sé ekki en auðvitað er þetta hugmyndafræðilegur ágreiningur. Ég hef ekki trú á því og hef ekki séð það gefast vel hingað til að nýta brauðmolakenninguna til þess að styrkja velferðarþjónustuna.