144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér að búið sé að telja þjóðinni trú um að matur sé dýr. Hann er það. Mér finnst einhvern veginn að ekki sé hægt að þræta fyrir það. Ég hef ferðast nokkuð erlendis um nágrannaríkin og hann er ódýrari þar.

Kannski er helsti munurinn sá að erlendis hefur maður aðgang að fleiri stigum markaðarins. Hér er botninn eiginlega miðstéttarmatur eða miðstéttarþjónusta á vörur almennt, en úti hefur maður val um eitthvað ódýrara, það er alla vega mín reynsla.

En með hliðsjón af því sem hv. þingmaður nefnir hér að matur sé dýr, það sé ekki bændum að kenna, gott og vel. Það sé ekkert skrýtið miðað við fámenni þjóðarinnar, gott og vel. Það sé ekki skrýtið miðað við legu landsins, gott og vel. Er þá ekki einmitt ástæða til að hafa lægri matarskatt með hliðsjón af þessum þáttum, með hliðsjón af því að matur er og verður dýr hér áfram?