144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil með mikilli gleði svara þessum athugasemdum frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Fyrst varðandi Samkeppniseftirlitið, þá er í engu verið að draga tennurnar úr því, ekki með nokkrum hætti. Það sem verið er að gera hér er að tímabundin fjárveiting rann út og við erum með þeim fjármunum sem við leggjum sérstaklega í aukið leiðbeiningarstarf að leggja til aðferð við að draga úr málafjölda Samkeppniseftirlitsins, ekki með því að auka fjárveitingar til þess með beinum hætti heldur með því að efla samtalið, taka samtalið og leiðbeininguna milli atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins sem kallað er eftir og báðir aðilar eru sammála um til þess að geta komið í veg fyrir mál og þannig greitt hér fyrir því að viðskipti og samskipti á atvinnumarkaði gangi sem best fyrir sig.

Það er forgangsröðunin þar og ég ítreka að ekki er verið að draga á neinn hátt úr rannsóknarheimildum og Samkeppniseftirlitið heldur að sjálfsögðu áfram þeim verkefnum sem það hefur verið að vinna.

Forklúðrun mála, segir hv. þingmaður varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og þá vinnu sem verið er að vinna varðandi gjaldtöku. Ef þingmaðurinn kallar það að hlusta eftir athugasemdum og vinna mál í samstarfi og samráði við greinina forklúðrun mála verður svo að vera. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það strandar ekki á fjármunum þegar kemur að verndun á fjölförnustu ferðamannastöðunum. Við settum sérstakt fjármagn í þann málaflokk í sumar og ég hef sjálf farið og get fullvissað hv. þingmann um að hvorki á Þingvöllum né Geysi eða Gullfossi, svo einhver dæmi séu nefnd, strandar núna á fjármunum. Það sem hefur tafið þar fyrst og síðast (Forseti hringir.) er að það vantar skipulag og það vantar bæði hjá stöðunum sjálfum og sveitarfélögunum. Þannig að þessi mál, (Forseti hringir.) ég get róað hv. þingmann, eru í ágætasta farvegi og við munum sjá gjaldtökufrumvarp hér á haustmánuðum.