144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:14]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég tala um heilbrigðismálin vil ég fyrst tala aðeins um fjárlagafrumvarpið í heild sinni og fagna þeim skattbreytingum sem þar koma fram. Ég tel afar brýnt að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Vörugjöldin sem falla niður eru þáttur í neyslustýringu sem ég tel að hið opinbera eigi ekki að hafa með höndum, t.d. sykurskattinn. Fólkið í þessu landi þarf ekki að láta yfirvöld hafa vit fyrir sér um hvernig það ver ráðstöfunartekjum sínum.

Áhyggjur mínar beinast hins vegar að þeim sem lægst hafa launin þegar hærri virðisaukaskattur leggst á matvæli. Í frumvarpinu er þessum vanda mætt og af orðum bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra má ráða að málið verði tekið föstum tökum og bótakerfið nýtt til þess að vega upp þessa hækkun og ekkert þar látið út af standa. Útkoman verður sú að við sjáum framfarir í efnahagsmálum með fækkun skatta og einföldun þeirra og heildarniðurstaðan er kaupmáttaraukning fyrir heimilin í landinu. Það er það mikilvægasta.

Að heilbrigðismálunum sem eru mér mikið hjartans mál eins og flestra í þessu landi. Við höfum dregist aftur úr á því sviði. Landspítalinn og heilbrigðisþjónustan var sannkallað þjóðarstolt, slíkur var aðbúnaðurinn og gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Síðan hefur margt breyst sem orðið hefur til þess að draga úr þessari góðu stöðu. Hér á Íslandi er á traustum grunni að byggja og við verðum að ráðast í uppbyggingu til að missa ekki frá okkur þá einstöku kosti íslenska heilbrigðiskerfisins þar sem ríkir fagmennska og umhyggja í garð sjúklinga í ríkum mæli. Eiga þessi atriði mjög stóran þátt í að gera þetta kerfi að því góða kerfi sem það er.

Það er gaman að segja frá því að það eru mjög góðar horfur til þess að brátt skapist enn betra svigrúm til að svona megi verða. Framlög til Landspítalans hækka bæði á fjárlögum þessa árs og í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir fyrir næsta ár. En ég skora á forráðamenn spítalans og vona að þeir beri gæfu til þess að halda fast um rekstrartaumana því að hallarekstur spítalans eykur bara á vandann þegar upp er staðið og nógur er hann fyrir.

Grunnforsenda þess að við Íslendingar höfum efni á að byggja við Landspítalann á myndarlegan hátt, eins og rík krafa er um og mikil þörf fyrir, er að ríkisrekstur haldist í jafnvægi. Nú um stundir erum við að greiða 80 milljarða á ári í vexti af lánum sem við höfum orðið að taka vegna þess að endar hafa ekki náð saman. Það eru því mjög góðar fréttir að mun meiri aga á að taka upp í fjármálum ríkisins (Forseti hringir.) og það hefur þegar skilað sér í hallalausum fjárlögum í fyrra og í ár og það þýðir bjartari tíma fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.