144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, miðað við þá samgönguáætlun sem hér var fram lögð er minna fjármagn í frumvarpinu sem við ræðum hér. Það er hárrétt. Það munar nákvæmlega 2.038 millj. kr. samkvæmt mínum útreikningum.

Það er auðvitað miður og ég hefði viljað sjá og mundi gjarnan vilja sjá í framtíðinni og hefði viljað sjá á undanförnum árum aukna forgangsröðun í þágu samgangna. Ég tel það mikilvægt. Ég tel að það sé mikilvæg innviðauppbygging sem við verðum að fara í. En þetta frumvarp minnir okkur á það, eins og svo margt annað í samfélagi okkar þessa dagana, að við stöndum enn á þeim vettvangi að þurfa að hagræða og spara. Við erum að hagræða og spara með ákveðnum hætti í þessum málaflokki sem hefur, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, þurft að þola það í nokkurn tíma. Ég vona að okkur auðnist að gera það af meiri myndugleika í framtíðinni en við höfum gert á undanförnum árum.

Það er hins vegar svo að við forgangsröðum, eins og ég sagði áðan, þessu viðbótarfjármagni sem við þó fáum frá síðustu fjárlögum í öryggi og viðhald.

Þetta er varðandi samgöngumálin og ég held að við hv. þingmaður deilum því alveg að við mundum gjarnan vilja sjá aukna forgangsröðun í þágu samgangna.

Það sem hv. þingmaður nefnir um innanlandsflugið er einnig rétt. Það er minna fjármagn til innanlandsflugsins en að óbreyttu er talið að við getum haldið uppi nákvæmlega sömu þjónustu og við höfum gert. Nú vinnur Isavia með það fjármagn til að við áttum okkur á því hvernig okkur tekst að vinna með það án þess að það verði mikil skerðing eða að til þess komi að breyta þurfi áætlunum á einhverja flugstaði.

Það er hárrétt líka hjá hv. þingmanni að útboðið átti að fara fram á þessu ári en vegna þess að menn eru að reyna að vinna að lausnum í þessu var því frestað þannig að það verður ekki fyrr en um áramótin.