144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að halda mig við samgöngumálin sem hafa reyndar verið lítillega rædd hér við hæstv. innanríkisráðherra. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka það sem hér hefur fram komið eða þýfga ráðherra meira um atriði sem þegar hefur verið spurt um.

Ég hef af því áhyggjur að þessi 3 milljarða kr. viðbót sem átti að renna til brýnna samgönguverkefna skuli vera skorin af þessu fjárlagafrumvarpi og inn settar í staðinn litlar 850 milljónir sem segir í frumvarpinu að skuli fara til nýframkvæmda. Engin viðbót fer í viðhald vega eins og vegamálastjóri hefur bent á.

Ég er að velta fyrir mér hvaða þýðingu þetta hafi fyrir landshluta þar sem samgöngumál eru mjög brýnn og veigamikill málaflokkur, t.d. á Vestfjörðum þar sem ríkir einna versta ástandið á landinu öllu í vegamálum. Ráðherra hefur reyndar sjálfur, sem þakka ber, sýnt ákveðinn skilning á því að á sunnanverðum Vestfjörðum þurfi að leysa ákveðin vandkvæði sérstaklega varðandi vegagerð í Gufudalssveit.

Þannig að nú er mín brýna spurning til hæstv. ráðherra sú: Við hverju mega Vestfirðingar búast nú þegar þrír milljarðar hafa verið skornir niður í 850 millj. kr. með tilmælum um að hluti fjármagnsins fari jafnvel frekar í viðhald en nýframkvæmdir?

Önnur spurning, sem ég vil beina til hæstv. ráðherra, varðar átaksverkefni sem efnt var til í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili varðandi kynferðisbrot gegn börnum. Tilefnið á sínum tíma var Kastljóssumfjöllun sem leiddi til stóraukinna tilkynninga um kynferðisbrot og niðurstaða átaksnefndarinnar sem sett var á laggirnar var að verja strax um 80 millj. kr. til að bregðast við þessum vanda. Nú er ekki annað að sjá af fjárlagafrumvarpinu en að innanríkisráðherra hafi þurrkað út fjármunina sem síðasta ríkisstjórn ákvað að setja í þessi afar mikilvægu mál. Að vísu sjáum við að félagsmálaráðherra tryggir áfram þær 20 milljónir sem í því ráðuneyti voru helgaðar þessu mikilvæga verkefni. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu missir 30 milljónir sem áttu að fara í þetta, 10 milljónir eru teknar af ríkissaksóknara. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum missir 10 milljónir og Fangelsismálastofnun og ríkislögreglustjóri missa einnig fjármuni sem höfðu verið eyrnamerktir í þetta verkefni.

Ég vil því gjarnan fá skýringar hjá hæstv. innanríkisráðherra hvort hún telji að ekki sé lengur þörf á þessu verkefni eða hver hennar sýn sé á framvindu þess.