144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Eins og kom fram í upphafsmáli mínu erum við að styrkja fjárlagagrunn Hafrannsóknastofnunar eftir niðurskurð og aðhald í mjög mörg ár. Það er ekki við núverandi ríkisstjórn að sakast og jafnvel ekki einu sinni þá síðustu heldur höfum við í of langan tíma verið að bæta við verkefnin án þess að þau hafi verið fjármögnuð. Kannski höfum við ekki gert okkur nægilega grein fyrir mikilvægi grunnrannsóknanna sem Hafrannsóknastofnun stendur fyrir sem við síðan byggjum alla okkar auðlindanýtingu á í sjávarútvegi. Hið sama á við um starfsemi stofnunarinnar víða um land, ekki síst á Akureyri þar sem hún er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Mér er kunnugt um það sem hv. þingmaður benti hér á, að það gangi ekki sem best og að það sé að draga úr þeirri starfsemi. Mér er kunnugt um að stofnunin er að velta fyrir sér með hvaða hætti hún geti bætt úr á því sviði. Það gæti orðið með einhverjum öðrum hætti en við höfum þekkt, en tilgangurinn er auðvitað að auka samstarf rannsóknastofnunarinnar og háskólasviðsins á Akureyri og eins á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við leggjum mikið upp úr í frumvarpi sem kemur inn til þingsins er varðar sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar í eina öfluga stofnun um haf og vatn þar sem við þurfum virkilega að bæta úr samstarfinu við háskólasamfélagið og rannsóknastofnanirnar. Ég tel að í því sé tækifæri á Akureyri. Það var hugmyndin upphaflega, og augljóslega við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri. Það hefur einhverra hluta ekki gengið nægilega vel. Það er verkefni sem við þurfum einfaldlega að skoða.