144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Varðandi afsláttinn er ég sammála hv. þingmanni að það var pólitísk samstaða um hann en allir viðurkenndu að það væri í raun og veru hálfgerður vandi að koma á afslætti vegna skulda þar sem þeir sem hefðu hagað sínum rekstri þannig að þeir skulduðu minna fengju ekki að njóta þess og þyrftu þar af leiðandi að greiða meira. Það voru allir sammála um að þetta væri nauðsynlegt og því hefur ekki verið breytt frá upphafi. Þetta eru sömu reglurnar allan tímann, lögmætar væntingar eru til þess að þetta standi í fimm ár, það eru tvö ár eftir, og þessu hefur ekkert verið breytt. Skattframtöl eru grundvöllurinn og eftirlitið miðast væntanlega við að skattframtöl séu rétt. Þannig að mér vitanlega er þetta eins og það hefur verið allan tímann og eftirlitið með sama hætti, þ.e. þetta byggist á upplýsingum úr skattframtölum.

Varðandi landshlutaáætlanirnar getur verið að hér séu mismunandi áherslur um það hvort það eigi að vera X-upphæð eða X sinnum eitthvað allt annað. Það er allt í lagi. Við getum tekið málefnalega umræðu um það hversu skynsamlegt það er. Mín skoðun hefur alltaf verið að þessar áætlanir séu af hinu góða, þær séu góðar. Ég hef fullyrt það að ég muni standa fyrir þeim.

Ég bið hv. þingmenn minni hlutans að búa ekki til óróa um að ekki standi til að halda áfram þessu verklagi vegna þess að við höfum unnið það með landshlutasamtökunum allt síðasta ár og þeir fjármunir sem koma inn í þetta munu væntanlega aukast á næstu árum. Ég hef nefnt nokkrar leiðir til þess. En í þessu fjárlagafrumvarpi var þess vænst að um 100 milljónir væru til verksins.