144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Ég held reyndar að það sé orðið svolítið síðan elstu nemendur voru endilega sendir með þeim yngstu í lífsleikni og leikfimi.

Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst dálítið skrýtið að í gegnum þetta fjárlagafrumvarp fáum við fregnir af því frá hæstv. ráðherra að sú stefnubreyting eigi sér stað, og meðvituð ákvörðun um það, að senda þau skilaboð inn í skólana að fækka eigi nemendum. Ég fagna því að hækka eigi þá fjármuni sem fylgja hverjum nemanda. En það er gríðarleg stefnubreyting að taka þá ákvörðun að fækka nemendum og samanlagt eru þetta næstum því þúsund nemendaígildi í framhaldsskólunum.

Ég hélt ekki við værum komin svo langt að við teldum að við værum komin á fullnægjandi stað hvað varðaði framhaldsskólagengna Íslendinga. Við erum ekkert komin þangað. Við erum ekkert jafn vel menntuð og langskólagengin og við tölum oft um, það sýna tölurnar okkur. Það er gríðarlegt brottfall úr framhaldsskólunum og menn verða að eiga einhverja endurkomumöguleika. Það er verra ef menn eru nú að fara í einhverja óskilgreinda röð vegna þess að verið er að taka ákvörðun um að fækka með þessum hætti.

Ég ætla ekkert að krefja hæstv. ráðherra frekari svara við þessu. Ég kalla bara eftir því að við eigum pólitíska umræðu um þessa stefnubreytingu hér í þingsal hið allra fyrsta. Ég ætla frekar að óska eftir því að hæstv. ráðherra segi mér sína skoðun á áhrifum þess að skattur á námsbækur og bækur hér á landi verði hækkaður jafn mikið og raun ber vitni. Það mun valda því, samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, að við verðum í fjórða sæti yfir hæstu skatta á bækur í Evrópu. Þetta hlýtur að vera mennta- og menningarmálaráðherranum áhyggjuefni og ég mundi vilja fá að heyra meira um þetta í seinni hlutanum hjá honum.