144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:03]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína og mjög góðar og málefnalegar umræður.

Ef við byrjum á því jákvæða þá erum við auðvitað afskaplega sátt við að haldið hefur við það að veita aukið fé í samkeppnissjóði, en það er mjög mikið áhyggjuefni að útgjöld svo mikilla grunnstoða sem menntun og menningarmál eru skuli vera orðin talsvert lægri en vaxtagjöld ríkissjóðs. Það er auðvitað tómt mál að tala um þetta núna en þetta er liður sem er sennilega arðbærasta fjárfestingin til framtíðar. Það er sárt að sjá að við gátum ekki notið góðs af þeim bankaskatti sem er núna kominn í þetta málefni.

Það er af nægu að taka en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í málefni háskólanna sérstaklega, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, og einmitt það sem hún nefndi að af nýútkominni skýrslu OECD sæjum við að Ísland fer enn lækkandi í samanburði við framlög annarra OECD-ríkja og sérstaklega annarra Norðurlandaþjóða.

Mig langar aðeins að minnast á brottfallið. Nú tala menn mikið um að við eigum nærri því heimsmet skilst mér í brottfalli í framhaldsskólum og háskólum, alla vega eigum við metið innan OECD-ríkjanna. Mönnum var mjög tíðrætt um það í aðdraganda kosninga að leysa þennan vanda. Ég sé ekkert í fjárlögum sem á að taka á þessum vanda eða er sérstaklega eyrnamerkt því eins og t.d. stuðningur við nemendur í brottfallshættu.

Annað vandamál sem við sjáum í atvinnuleysinu er að einn stærsti hópur atvinnuleitenda er ungt fólk með háskólagráðu, sem gefur mér vísbendingar um að námið haldi ekki í við atvinnuþróun. Mig langar aðeins að heyra í hæstv. ráðherra hvað það varðar, þ.e. brottfall og að námið sé ekki að skila sér í auknum atvinnumöguleikum ungs fólks. Það er eiginlega bara þetta tvennt.