144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu í gær og í dag. Upp úr umræðunni um fjárlögin stendur sú ótrúlega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að hækka skatta á nauðsynjavöru fyrir almenning um 11 milljarða kr., hækkun á lægra virðisaukaskattsþrepinu úr 7 í 12%, stærsta skattahækkun frá því eftir efnahagshrun ef ekki í sögu Íslands. Ég veit að minnsta kosti engin dæmi um 11 milljarða einstaka skattahækkun fyrr. Hér hafa engin önnur dæmi verið nefnd. Þangað til það hefur verið gert hlýtur þetta að vera Íslandsmet í hækkun skatta.

Það ótrúlega hefur gerst að formaður þingflokks annars stjórnarflokksins hefur lýst því yfir að þessi tillaga sé aðeins sett fram til þess að kanna viðbrögðin. Það er full ástæða fyrir okkur í þinginu til að sýna skýr viðbrögð við þessum vondu tillögum og kalla eftir því að almenningur og verkalýðshreyfing, neytendasamtök og aðrir þeir aðilar sem úti í samfélaginu hafa nú fengið að heyra þennan boðskap, sendi ríkisstjórninni skýr skilaboð um það hvað þeim finnst um þessa gríðarlegu skattahækkun á nauðsynjavörur.

11 milljarðar eru nærfellt 100 þús. kr. á hvert heimili í landinu — nærfellt 100 þús. krónur á hvert heimili í landinu. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt löngu sannað að það kemur verst við hina lægst launuðu í samfélaginu. Það er tómt mál að tala um það sem einhverjar mótvægisaðgerðir fyrir þá þó að vörugjöld af tilteknum nýjum innfluttum vörum séu lækkuð. Og að tala um að það að afturkalla lækkunina á barnabótunum í ár á næsta ári sé mótvægisaðgerð fyrir hina tekjulágu er auðvitað líka tómt mál að tala um, það hefur umræðan dregið fram, hækkunin sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um gerir ekki annað en að vega upp lækkunina sem hann sjálfur stóð fyrir í ár og felur þess vegna enga kjarabót í sér sem vegur neitt upp á móti þessari stórkostlegu skattahækkun á lífsnauðsynjar.

Það er líka mjög athyglisvert að heyra æ fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hreyfa mótmælum við þessu og heyra forsætisráðherra sjálfan, annað árið í röð, afneita eigin fjárlagafrumvarpi í tíufréttum að kvöldi stefnuræðu sinnar á þeim degi sem fjárlagafrumvarpið hefur verið lagt fram. Ég held að það hafi aldrei gerst áður í þingsögunni að forsætisráðherra hafi tvö ár í röð lýst því yfir á framlagningardegi fjárlagafrumvarps að það þurfi að breyta því í þinginu.

Það er athyglisvert að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja hér við lok umræðunnar að kanna þurfi hvort við getum gert þetta með öðrum hætti. Hefur þá ekki betur verið staðið að tillöguflutningnum af hálfu hæstv. fjármálaráðherra en svo að þremur dögum eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins telur hann að það þurfi að skoða vel hvort við getum gert þetta á annan og betri hátt en hann sjálfur hefur lagt til? Er ekki meiri ígrundun á bak við tillögur frá hæstv. fjármálaráðherra um slík grundvallaratriði, ekki bara í ríkisrekstrinum heldur í rekstri heimilanna í landinu, en að það þurfi að skoða það alveg sérstaklega hvort við getum gert þetta á betri hátt en hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt til?

Ef það er ástæða til þess að skoða það, hefði hæstv. fjármálaráðherra ekki átt að bíða með þennan tillöguflutning? Enda virðist hafa verið kastað nokkuð til höndunum þegar ekki er samræmi á milli tillagnanna sem annars vegar koma fram í fjárlagafrumvarpinu og hins vegar í frumvörpunum til tekjuöflunar, því að fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að það sé hækkað í 11% en ekki 12.

Þetta hefur nú verið farið ágætlega yfir. Ég held að það sé flestum orðið ljóst hversu ótrúlega vondar tillögur þetta eru um að hækka rafmagn og hita og mat. Hér í kvöld, síðla kvölds, bætti hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson enn í reynslusarpinn í þeim efnum þegar hann lýsti því yfir að hann hafi sem menntamálaráðherra aðvarað hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson sérstaklega við afleiðingum þess að hækka skatt á íslenskar bækur. Hæstv. menntamálaráðherra segir í ræðustól Alþingis að ef það eigi að gera þetta þurfi að grípa til mótvægisaðgerða. Það verður athyglisvert að heyra það hjá hæstv. fjármálaráðherra í lok umræðunnar hvort hann ætli að taka tillit til þeirra varnaðarorða menntamálaráðherrans eða hvort hann hafi hugsað sér að grípa til mótvægisaðgerða sem hann hafi ekki náð að hugsa fyrir áður en hann lagði fram þessar tillögur hér í fjárlagafrumvarpinu.

Þetta um skattaáformin. Við höfum svo sem nægilega rætt um aðra þætti tekjuöflunarmálanna og höfum aðallega í dag verið að ræða einstaka málaflokka. Þar hefur margt gagnlegt komið fram og ýmis og enn fleiri atriði sem er þegar lýst yfir af hálfu einstakra ráðherra að þurfa að laga og leiðrétta í meðförum þingsins, svo sem eins og þegar atvinnuvegaráðherra hér fyrr í dag skildi ekki í því hvers vegna væru einungis 15 milljónir til sóknaráætlunar því að hann hugði að þær ættu að vera 100 og taldi mikilvægt að þingið leiðrétti það. Vekur það enn spurningar um það hvernig staðið er að fjárlagagerðinni ef ráðherra málaflokksins heldur að það séu allt aðrar fjárhæðir settar í að jafn brýnt mál og sóknaráætlun en í raun eru í fjárlagafrumvarpinu.

Hér var líka farið í gegnum niðurskurðinn til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og þá erfiðu stöðu sem komin er upp í sambandi við gjaldtöku á ferðamannastöðum á Íslandi vegna þess hversu illa hefur verið á málinu haldið af hálfu iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Það var meðal annars rætt um það átak sem ráðist var í vegna kynferðisbrota gegn börnum. Ég treysti því að það verði farið í að laga þá brotalöm því að það er rangt sem kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að þess átaks sé ekki þörf lengur. Í gær kom út afbrotatölfræði lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Það er einfaldlega þannig að það hefur aldrei verið annar eins tilkynningafjöldi í þessum málaflokki, hvorki fyrr né síðar. Það bendir sannarlega ekki til þess að átaks sé ekki lengur þörf þegar tilkynningarnar eru fleiri en nokkru sinni fyrr. Þær á þá eftir að meðhöndla hjá lögreglustjóranum sem hafði til þess fjárveitingar, hjá ríkissaksóknara og hjá öðrum stofnunum, eins og hæstv. velferðarráðherra hefur sem betur fer tryggt að er til staðar hjá Barnaverndarstofu sem hefur breytt tímabundnu framlagi til þessara mála í varanlegt framlag og hafi hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir hrós fyrir það.

Líka hefur verið farið yfir það með hæstv. heilbrigðisráðherra hversu óhóflega langt er verið að ganga í því að leggja gjöld á sjúklinga og í tengslum við lyfjanotkun og ótrúlegt að verið sé að bæta í þar nú þegar peningum í ríkissjóði er að fjölga, þegar landsframleiðslan í landinu er að aukast.

Fjölmörg önnur slík gagnleg atriði hafa komið fram við umræðuna og munu nýtast í fjárlaganefndinni við það, vonandi, að bæta það sem hægt er að bæta við þetta frumvarp. Megingalli þess er auðvitað sá að það er annars vegar þensluhvetjandi og hins vegar er það ósanngjarnt, því að það eykur á ójöfnuð í samfélaginu.

Það er kannski hið fyrrnefnda þó sem hefur hvað minnst komið til umræðu, þ.e. hve þensluvaldandi frumvarpið er, vegna þess að hér er það alveg rétt að verið er að ausa verulegum fjármunum út til hluta heimila í landinu. Það er til heimila efnafólks, fimm þúsund efnuðustu heimilin, þau fá 10 milljarða. Það er verið að setja út nærfellt 20 milljarða í ótekjutengdum vaxtabótum, sem er sennilega einsdæmi í veraldarsögunni, þar sem tekjuhátt fólk og eignamikið fólk fær verulegan hluta þeirra vaxtabóta sem verið er að greiða út. Á ýmsan hátt er verið að auka gríðarlega ráðstöfunarfé hluta heimila í landinu, efnaheimila og tekjuhárra heimila. Það er verið að gera þetta á allra versta tíma.

Við höfum sem betur fer búið við hagvöxt núna ár eftir ár frá því á síðasta kjörtímabili. Landsframleiðslan hefur verið að aukast stig af stigi og það er orðin ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að það verði hér ofhitnun með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu, á vaxtastig og á lífskjör þess fólks sem ekki mun fá þessi framlög úr ríkissjóði frá hæstv. fjármálaráðherra, þ.e. venjulegs launafólks. Við höfum vítin til að varast þau. Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks jós á árabilinu 2003–2007 verulegum fjármunum úr ríkissjóði til vitlausra hópa á versta tíma. Hér varð bóla og hún sprakk. Það er full ástæða til þess við lok þessarar 1. umr. að minna hæstv. fjármálaráðherra á það.

Ég vil síðan ekki hafa mörg orð um þá uppákomu sem varð hér með hæstv. dómsmálaráðherra í dag sem kannaðist ekki við að vera forsætisráðherra landsins (Forseti hringir.) en ég lýsi því yfir að við hljótum að taka það upp á fundi með forseta Alþingis, þingflokksformenn, á mánudagsmorgun hvílík hneisa það var að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki virða formenn stjórnmálaflokka á Alþingi málefnalegra spurninga um (Forseti hringir.) fagmálefni sem undir hann heyra.