144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

mygluskemmdir í húsnæði.

[15:26]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þessa sögu sem hv. þingmaður kom hér fram með held ég að við öll þekkjum tilvik þar sem hafa komið upp sýkingar hjá fólki vegna raka í húsum. Það getur verið vegna leka eða vegna þess að hús séu of þétt. Það virðist vera eins og að þessi mál hafi komið oftar upp á undanförnum árum en áður var. Það getur hugsanlega verið vegna þess að ekki hefur verið gætt nógu vel að byggingu eða viðhaldi húsa eða vegna þess að við þekkjum betur hvaða áhrif svona sýkingar geta haft á heilsu fólks.

Við í velferðarráðuneytinu höfum verið að fást við raka. Það komu upp heilsufarsvandamál hjá starfsfólkinu þannig að við könnumst ágætlega við þessi einkenni. Ég held að þetta hljóti að vera samstarfsverkefni mitt og þess ráðherra sem fer með eftirlit með byggingarframkvæmdum.

Nýlega kom kona að máli við mig og sagði sína sögu af því hvaða áhrif þetta hefði haft á heilsufar hennar og fjárhag. Hún kom með ýmsar ábendingar sem mér fannst vera þess virði að skoða. Þær sneru sérstaklega að því að ef til vill þyrfti að huga að einhvers konar neyðarhúsnæði fyrir fólk þannig að það gæti flutt frá heimili sínu ef húsnæðið hefði haft slík áhrif á heilsufar fólks, það hefði veikst. Húsnæðið þyrfti raunar að uppfylla ákveðin skilyrði. Í þeim tilfellum væri til staðar neyðarhúsnæði.

Þetta er fjölþætt vandamál og við höfum í auknum mæli óskað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum sem hafa það hlutverk samkvæmt lögum (Forseti hringir.) að útvega fólki neyðarhúsnæði vegna (Forseti hringir.) ákveðinna félagslegra eða fjárhagslegra aðstæðna (Forseti hringir.) og fara yfir hvað sveitarfélögin geta gert í meira mæli til þess að mæta þessum þörfum.