144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:00]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þetta er svolítið undarleg umræða. Það var byrjað á að tala um að þetta snerist ekki um lekamálið heldur stjórnfestu. Hvert hefur umræðan farið? Hefur hún snúist um stjórnfestu í Stjórnarráðinu? Nei, hún snýst auðvitað bara um þetta eina mál.

Það er mikilvægt að ráðherrar sem eru æðstu menn í ráðuneytum, æðstu menn framkvæmdarvaldsins, missi ekki almennt hæfi þegar að þeim er sótt. Vissulega getur verið vanhæfi hvað varðar sérstakt hæfi. Þess vegna er farin sú leið að færa málaflokka undir annan ráðherra sem er mjög eðlileg leið. Það yrði minni stjórnfesta ef menn þyrftu alltaf að rjúka alla leið út úr framkvæmdarvaldinu vegna mála af þessu tagi.

Ég tel mikilvægt að sá sveigjanleiki sem síðasta ríkisstjórn kom á og taldi mikilvægan — við getum síðan deilt um það hvort það sé yfir höfuð gott, en þessi leið var farin og það er mjög eðlilegt að hún skyldi farin með þessum hætti.

Mér finnst líka undarlegt að það sé verið að stilla formönnum stjórnarflokkanna upp með einhverjum hætti og ræða hvað þeir ætli að gera í þessu. Svona er þetta gert, menn bíða núna niðurstöðu umboðsmanns og þá verða teknar ákvarðanir sem þingið auðvitað gerir sjálft.