144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu hér í lokin. Ég held að hún hafi orðið til góðs og hún hefur skýrt ýmislegt. Það er mikilvægt að hafa í huga að hér er ekki hægt að bera þetta mál saman við ráðherrabreytingar sem stafa af því að forsætisráðherra fari með verkstjórnarvald, eða stjórnarflokkar. Hér er um það að ræða að það er ráðherra sem kemst sjálfur að þeirri niðurstöðu að hann geti ekki gegnt tilteknum málaflokkum sem undir hann heyra. Þá er farin sú leið að brjóta upp ráðuneytið og taka undan honum þá málaflokka.

Það er það sem hér er gagnrýnt. Til þess þarf tilverknað formanna beggja stjórnarflokka og ábyrgðin er auðvitað á höndum formanns þess flokks sem ráðherrann tilheyrir. Ef það er svona sjálfsögð leið að taka ákveðna málaflokka undan ráðherra til að hann fái áfram að sitja, af hverju er þá ekki eitt einasta dæmi í stjórnmálasögu Vesturlanda um að þessu úrræði hafi verið beitt, ekki í nokkru ríki?

Þegar við horfum á öll þau tilvik þar sem dómsmálaráðherrar hafa þurft að víkja vegna þess að tiltrú á þá hefur rýrnað vegna tiltekinna atvika, jafnvel atvika sem eru ekki þeim persónulega að kenna á nokkurn hátt, hefur það aldrei gerst svo dæmi sé tekið — það hefur oft gerst að dómsmálaráðherrar í nágrannalöndum okkar hafa sagt af sér vegna flótta hættulegra manna úr fangelsi sem er alls ekki á þeirra ábyrgð — að fangelsismál séu undan þeim tekin og þeir látnir sitja áfram.

Virðulegi forseti. Ef haldið er áfram á þessari leið endum við í lausnum eins og þeirri sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi hér, að þá verði búið til sérstakt skattamálaráðuneyti ef fjármálaráðherra sætir skattrannsókn eða ef menntamálaráðherra gerir eitthvað sem veldur því að hann geti sinnt málefnum grunnskóla verði búinn til sérstakur grunnskólamálaráðherra. (Gripið fram í.) Allir sjá að þetta er ófær leið. (Forseti hringir.) Hér reynir á stjórnfestu. Stjórnfesta er að ábyrgð sé borin af þeim sem eiga að bera hana. (Forseti hringir.) Stjórnmálamenn verða að bera ábyrgð. (Forseti hringir.) Þannig einungis tryggjum við tiltrú á stjórnmálum.