144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í störfum þingsins í dag ætla ég að ræða málefni sem hefur verið mér nokkuð hugleikið undanfarnar vikur. Það er nefnilega svo að ég hef áhyggjur af stöðu einstaklinga sem voru með gengistryggð lán, einstaklinga sem eru að reyna að leita réttar síns vegna lánamála hjá fjármálastofnunum. En baráttan gengur því miður illa vægast sagt.

Mig langar að segja hér eina stutta sögu en hún er einmitt lýsandi dæmi fyrir þá einstaklinga sem til mín hafa leitað. Um er að ræða einstakling sem er með gengistryggt lán hjá fjármálastofnun. Í hruninu hækkaði lánið upp úr öllu valdi. Samningaviðræður um afborganir voru í fullum gangi við viðskiptabanka viðkomandi en skiluðu engum árangri. Þetta endar með því að einstaklingurinn fer í þrot. Það gerist aðeins örfáum dögum eftir og þá meina ég eftir að lán með sömu lánaskilmála og sömu skilyrðum í alla staði voru dæmd ólögleg í Hæstarétti Íslands.

Síðan þetta gerðist hefur sá einstaklingur sem hér um ræðir reynt að leita réttar síns. Hann hefur óskað eftir endurútreikningum við bankann en bankinn neitar, nema hann fari í mál. Gerum okkur grein fyrir því að aðeins lítill hluti þeirra einstaklinga sem stendur í þessum sporum hefur fjárhagslegt bolmagn til að fara í mál gegn fjármálastofnunum. Að vísu er hægt að sækja um gjafsókn í þessum málum en skilyrðin eru mjög þröng. Einnig hefur verið leitað til hagfræðings hjá virtri stofnun við það að endurútreikna lánin. Jafnframt hefur matsmaður á vegum bankanna og einstaklingsins reiknað út lánin og var sá matsmaður samþykktur á vegum bankans. Þessir aðilar komust allir að sömu niðurstöðu, að það verði að endurútreikna lánin en bankinn neitar enn, vill ekkert gera nema einstaklingurinn fari í mál. Leitað hefur verið til stofnana sem eiga að tryggja hag neytenda og hafa aðhald með fjármálastofnunum en þær vísa hver á aðra.

Mikilvægt er að við sem sitjum hér á Alþingi skoðum þessi mál og reynum eftir fremsta megni að tryggja að einstaklingar geti sótt rétt sinn í hinum ýmsu neytendamálum.