144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg ágætlega málefnalega ræðu. Þar kom margt gott fram. Hv. þingmaður talaði um að bilið væri of mikið í virðisaukaskattskerfinu. Eins og ég skildi hv. þingmann núna og í fyrri ræðu sinni talar hann fyrir einföldun og breikkun skattkerfisins. Hann nefndi sérstaklega ferðaþjónustuna í fyrra andsvari sínu. Mér fannst hann líka tala fyrir lækkun eldsneytisverðs af því að hann lagði sérstaklega áherslu á lækkun flutningskostnaðar. Við erum nú að stíga skref í rétta átt hvað það varðar.

Við erum að tala um nauðsynjavörur og hv. þingmaður sérstaklega um þá lægstlaunuðu. Nú sýna kannanir að þeir sem kaupa nær eingöngu föt hér á landi eru lægstu tekjuhóparnir. 30–35% af öllum fatnaði er keyptur af Íslendingum í öðrum löndum. Finnst hv. þingmanni ekki gott að við séum þá að lækka virðisaukaskattinn á þær vörur? Ég get líka nefnt raftæki, byggingarvörur og varahluti í bíla. Mér finnst talsmáti hv. þingmanns stundum benda til þessarar gömlu íslensku hugsunar. Hér voru einu sinni lög sem hétu bann við innflutningi á óþarfa. Það er talað eins og allt sé einhver óþarfi.

Til dæmis talar hv. þingmaður mikið um flatskjái. Ég er ekki sérfræðingur í þeim. Ég fór hins vegar á vefinn áðan og skoðaði, að ég held, stærstu raftækjaverslunina. Ég sá ekki að til væru önnur sjónvörp en flatskjáir. Hv. þingmaður er væntanlega búinn að kynna sér hvort það sé til eitthvað annað í þessum efnum en flatskjáir. Það væri gaman að vita það úr því að menn eru að ræða þetta hér.