144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þótt hún væri svona frekar á svartsýnishliðinni og frekar dapurleg. Ég vil spyrja hana að því: Hvernig eignast fólk yfirleitt þvottavélina sem er nánast á hverju einasta heimili? Hvernig eignast fólk ísskápinn? Og sjónvarpið? Hefur hv. þingmaður komið inn á eitthvert heimili þar sem ekki er ísskápur, þvottavél, eldavél og sjónvarp, fyrir nú utan bráðnauðsynlega síma? Allt er þetta í hærra þrepinu og margt af þessu ber vörugjöld sem í þessu frumvarpi er lagt til að leggja algjörlega af, sem er alveg stórkostlegt í mínum huga.

Þessi tæki munu lækka um 17–20% við þessa lagabreytingu. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki til þess að gleðjast yfir? Fólk þarf að kaupa þetta einhvern veginn og annað hvort kaupir það nýtt eða notað. Ef það kaupir tækið nýtt þá lækkar það strax um 17%, ef það kaupir það notað þá munu notaðar vörur líka lækka af því nýjar vörur lækka. Það er því alveg sama hvernig fólkið eignast þessi tæki, þetta mun alltaf koma því til góða, af stærðargráðunni 17–20%. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann enga trú á því að fólk þurfi þessi tæki?