144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef alla vega meðtekið það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telur það nægilega mótvægisaðgerð að hækka barnabætur eins og hann fór hér yfir, að heildarupphæðin hækki um rúmar 200 millj. kr. frá þeirri upphæð sem samþykkt var og þótti nægileg árið 2013. Honum finnst það nægileg mótvægisaðgerð og er ánægður með að barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðartekjur og að þær skerðist hraðar en í því kerfi sem fyrir er. Gott og vel, það eru skilaboðin. Það finnst honum nægilegt og telur ekki hvað varðar öryrkja eða barnlausa einstaklinga sem eiga erfitt með að ná endum saman, að ástæða sé til þess að koma með einhverjar aðgerðir til mótvægis fyrir þær aðstæður sem þeir búa við. Þetta er algjörlega kristaltært og meðtekið.

Varðandi hinar prósentutölurnar, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór hér yfir, þá vil ég fá að ræða þær við hann þegar ég hef fengið upplýsingar, sem ég mun kalla eftir að hann veiti Alþingi, þegar ég hef ég hef fengið þær upplýsingar og greiningu niður á töflu eftir tekjutíundum annars vegar og virðisaukaskattsþrepum hins vegar. Og þá getum við tekið þessa umræðu með staðreyndirnar fyrir framan okkur og komist eitthvað áfram. Ég hef grun um það og tilfinningu fyrir því að með þessu sé verið að skilja stóra hópa út undan og að þessar mótvægisaðgerðir séu ekki nægilegar og öll kerfisbreytingin muni leiða til ójafnaðar í samfélaginu.