144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún hafði farið fram hjá mér þessi yfirlýsing hæstv. „aðstoðarforsætisráðherra“ Ásmundar Einars Daðasonar í Fréttablaðinu, ef ég skil það rétt, á föstudaginn var, um að þingflokkur Framsóknarflokksins í heild sinni hafi fyrirvara við þingmál nr. 1, fjárlagafrumvarpið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé örugglega rétt með farið því að ég hélt að ég hefði skilið það rétt að fjárlagafrumvarpið væri stjórnarfrumvarp flutt af ríkisstjórn Íslands og þar með þeim ráðherrum sem þar sitja. Ef ég man þetta rétt mundu ekki færri en fjórir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem flytur málið vera jafnframt þingmenn Framsóknarflokksins. Ég átta mig ekki á því hvernig það getur farið saman að þessir þingmenn Framsóknarflokksins, sem jafnframt eru ráðherrar, séu flutningsmenn málsins, og það er ekki getið um neina fyrirvara í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu af hálfu einhverra flutningsmanna, en að þeir séu síðan eigi að síður með einhvers konar fyrirvara við málið.

Nú hefur hv. þingmaður reynslu af því að sitja í ríkisstjórn og ég spyr: Er þetta hægt? Er hægt að flytja þingmál sem ráðherra í ríkisstjórn en hafa síðan fyrirvara sem þingmaður í þinginu? Hlýtur þetta ekki bara að vera fyrirvari frá þeim þingmönnum sem ekki eru ráðherrar, sem eru þá í einhvers konar uppreisn gegn ráðherrahópi sínum?