144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að miklar umræður voru hér í þingsal í gær og eru hafnar í dag um virðisaukaskattskerfið og þær áherslur sem birtast í fjárlögum fyrir árið 2015.

Í umræðunni hefur verið kallað eftir viðbrögðum frá þingmönnum Framsóknarflokksins og sérstaklega frá þeim sem stigið hafa fram og verið með yfirlýsingar um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu.

Ég er einn þeirra þingmanna sem lýstu áhyggjum sínum af frumvarpinu eins og það lítur út núna. Sú skoðun mín hefur komið fram opinberlega, bæði á vefsíðum og einnig hjá hinum ýmsu fjölmiðlum. Til að gera stutta sögu ekki langa þá er ég enn á sömu skoðun og það hefur margsinnis komið fram. En gerum okkur grein fyrir, eins og allir vita, að frumvarpið er komið til umræðu í þinginu. Eins og kom fram í yfirlýsingu frá mér varðandi þessar breytingar er ég fullviss um að þingheimur allur, og ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, getur lagst á eitt við að koma þessu frumvarpi í gegn með ákveðnum breytingum, breytingum sem allur þingheimur telur sig þurfa að gera og geta komið öllum tekjuhópum til góða.

Afar ánægjulegt er að heyra í umræðunni að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé opinn fyrir því að frumvarpið taki breytingum í meðförum þingsins með það að markmiði að kaupmáttur aukist, verðlagsáhrif verði jákvæð og staðinn verði vörður um þá sem lægstar hafa tekjurnar og einnig verði staðinn vörður um millistéttina sem hefur tekið á sig auknar byrðar í þjóðfélaginu frá hruni.

Þetta er nákvæmlega sá fyrirvari sem Framsóknarflokkurinn setur í málinu.