144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið löng umræða og gagnleg og málefnaleg svona stærsta partinn. Ég hef svo sem ekki mikið til hennar að leggja hér í lokin en það er þó eitt atriði sem mig langar til að koma sérstaklega að.

Ég lít svo á að ég komi hér í fyrsta skipti í sögunni sem fulltrúi framsóknarmanna í Skagafirði. Ég ætla að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að hafa brugðist við áskorun framsóknarmanna í Skagafirði um það að standa við stefnu Framsóknarflokksins.

Ég er þeirrar skoðunar að hv. þingmaður, sem segja má að ég hafi sært upp í ræðustól með áskorunum mínum og frýjunarorðum í gær, sé maður að meiri að koma hingað og hann sýni kjark þegar hann kemur og segir það algjörlega klárt og kvitt að hann hafi ekki breytt um skoðun og hann hafi enn engin rök séð sem séu líkleg til þess að breyta hans skoðun. En vissulega segir hann að það kunni vel að vera að þau eigi eftir að koma fram og hann áskilur sér þá rétt til að taka upp önnur viðhorf.

Ég veit vel hvað það er erfitt að vera þingmaður sem er tiltölulega nýr á þingbrautinni og standa gegn forustunni, ekki síst þegar ofurvald fjögurra ráðherra í eigin flokki leggst þungt á málið og þar að auki allir þingmenn í liði hins flokksins. Það þarf kjark til þess og hann á heiður skilið fyrir það. Ég tek undir hvert einasta orð í ályktun Framsóknarfélags Skagafjarðar sem skorar á þingmenn Framsóknarflokksins að standa við stefnu flokksins um að hækka ekki matarskattinn og rifjar upp í ályktuninni þau orð hæstv. forsætisráðherra, sem hann lét falla hér fyrir nokkrum missirum, að það væru skelfilegar fréttir ef það ætti að hækka matarskattinn og undirstrikaði sömuleiðis þau orð hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að það væri margsannað að hækkun matarskattsins legðist þyngst á hina tekjulægstu.

Ég er sammála þessu. Og það voru jafnaðarmenn og það voru framsóknarmenn sem á sínum tíma höfðu frumkvæði að því að lækka mat og bækur niður í 7%. Af hverju? Vegna þess að Framsóknarflokkurinn og jafnaðarmenn á öllum vængjum vilja verja tvennt, mat og menningu. Það er þá rétt að rifja það upp hér fyrir hæstv. frammíkallanda, ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, að hann sjálfur greiddi atkvæði með því að fella matinn úr 14% niður í 7%. Og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem hér hefur í allan dag og gærdag rifið sig alveg niður í hnésbætur út af málinu, hann gerði það líka. Og hver talar svo um hringsnúning í málinu? Og hvaða flokkur var það sem vildi fara, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar upplýsir nú að hæstv menntamálaráðherra hafi sagt í gær, með bækur niður í 0% til að verja íslenska menningu? Það var flokkur sjálfstæðismanna. Það var Sjálfstæðisflokkurinn og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hann studdi þá stefnu. Hún varð hins vegar ekki að veruleika en það var góð stefna.

Ég vil segja það um hv. þm. Karl Garðarsson að hann hefur ómælda virðingu mína. En ég bíð eftir því að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, komi hér og segi sína skoðun. Hv. þingmaður hefur ekki enn þá skráð sig á mælendaskrá. (VigH: Ég er hérna.) Þó hefur hún farið og geipað í fjölmiðlum um það að hún ætli að skýra afstöðu sína hér í þessum sal. En sem hv. þingmaður gengur fram hjá mér og ég horfist í augu við hana sé ég hvað það er sem veldur því að á síðustu dögum hefur hún verið á hröðum flótta, svo sér undir hófa hennar, frá fyrri yfirlýsingum. Og það er ráðherraglýjan sem komin er í augu hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður á sama draum og ég að hún verði ráðherra (Gripið fram í.) því að það er líka draumur minn (Gripið fram í.) þó að það sé hugsanlega af öðrum rökum en hv. þingmaður. En ég styð það að Vigdís Hauksdóttir verði ráðherra sem fyrst alveg eins og hún gerir þá líka. En er það kannski það, draumurinn um að komast í raðir ráðherranna, sem veldur því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er nú farin að fikra sig til baka. Og hún ætlar greinilega að vera í hópi þeirra sem svíkja málstað bænda og Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.)

Í þessari umræðu hefur eiginlega enginn komið og talað máli bænda. Ég hef ýmsar skoðanir á því hvernig fyrirkomulag landbúnaðarframleiðslunnar er. En mér finnst það nöturlegt og hart að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn skuli bindast samtökum um það að ætla nánast að helminga virðisaukaskatttöku á bændum. Einhver þarf að verja þá en það er kannski illa fyrir þeim komið ef þeir eru búnir að missa Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn og það er enginn eftir nema jafnaðarmenn til þess að hjálpa þeim. En við munum hins vegar standa í ístaðinu.