144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra væri hollt að fara í smölun í Skagafirði, og réttir líka, og hitta þar fyrir framsóknarmenn sem hafa mótmælt þessari hækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Það væri ágætt að hann færi bara þvert og breitt um landið og hitti fyrir fólk, hvort sem það væri í smölun eða réttum eða hvar sem það væri, láglaunafólk, almenning í þessu landi, sem þarf að búa við að það sé verið að hækka virðisaukaskatt á brýnustu nauðsynjum.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um samanburð á milli einstaklinga sem eru með annars vegar 200 þús. kr. í ráðstöfunartekjur og hins vegar 700 þús. kr. Ef við tökum 15% af 700 þús. kr. í ráðstöfunartekjur eru það 105 þús. kr. sem færu þá í matarinnkaup en ef við tökum 20% af 200 þús. kr. væru það 40 þús. kr. Hvað stendur eftir? Horfum á upphæðina sem stendur eftir. 160 þús. kr. standa eftir hjá þeim einstaklingi sem á eftir að framfleyta sér með húsnæði og allar aðrar nauðsynjavörur en mat fyrir þessa lágu upphæð.

Hinn einstaklingurinn hefur 595 þús. kr. til þess að veita sér ýmislegt af því sem lækkun vörugjalda mun nú gera fyrir samfélagið. (Gripið fram í.) Ég held að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að koma niður á jörðina. Já, það er dýrt að vera fátækur og það er bara allt í lagi að menn setji sig í spor þeirra sem hafa það verst í þessu þjóðfélagi og geri ekki lítið úr því hvað þeir hafa lítið handa á milli. (Forseti hringir.) Telur hæstv. fjármálaráðherra að verkalýðshreyfingin hoppi hæð sína við svona aðgerðir þegar kjarasamningar eru fram undan?