144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar vinstri stjórnin sleit hækkun persónuafsláttar úr tengslum við hækkun vísitölu neysluverðs var ekki verið að hugsa um lægst launaða fólkið. Þá rýrnaði persónuafslátturinn í kaupmætti. Það er það sem gerðist. (Gripið fram í.) Það var sannarlega ekki skattaleg áhersla sem horfði á tekjulægstu hópana. Það sem gerðist síðan í framhaldinu þegar vísitalan var aftur tekin upp á persónuafslátt og skattkerfinu breytt í kjölfarið hlífði vissulega tekjulægsta hópnum. Það eru bara óskaplega fáir sem voru í því neðsta tekjuþrepi, 4% tekjuskattsgreiðenda. Hin 96% fengu skattahækkun á sig við breytingar á tekjuskattskerfinu vegna þess að miðþrepið hækkaði og efsta þrepið hækkaði líka. Í þessum tveimur (Forseti hringir.) þrepum eru 96% launþeganna.