144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Einu sinni enn: Af heildarútgjöldum eyða tekjuhóparnir svipuðu hlutfalli í mat. Af ráðstöfunartekjum verja tekjulægstu hóparnir, ekki aðeins í mat heldur í alla aðra neyslu, hærra hlutfalli en hinir. Þess vegna skipta þessar breytingar meira máli og auka kaupmátt tekjulægri hópanna meira heldur en fyrir tekjuhærri hópana, þær skipta meira máli fyrir tekjulága en tekjuháa.

Talandi um að minnið sé eitthvað að bregðast mér. Man ég það ekki rétt, alveg örugglega, að hv. þingmaður sat í ríkisstjórninni sem tók við hérna árið 2007. (Gripið fram í: Jú.) Ég minnist þess ekki að hv. þingmaður hafi haft uppi mjög mörg og þung aðvörunarorð um það sem hlyti að vera fram undan. Nú sat ég ekki í þeirri ríkisstjórn, ólíkt hv. þingmanni sem kemur hér eins og hvítþveginn engill, (Gripið fram í.) algjörlega ábyrgðarlaus (Gripið fram í.) af öllu því sem gerðist hér árið 2009 og í aðdraganda þess eins og hann hafi verið sá eini á landinu sem sá þetta allt fyrir.

Það eina góða í raun og veru sem kom fram í máli hv. þingmanns er þetta: Hann kannast þó að minnsta kosti við að hafa farið í skattahækkanir. Hann kannast við það að 2010 hafi skattar hækkað um eða yfir 60 milljarða. Það er gott að menn kannist loksins við það í umræðunni núna. Þá skulum við ræða þá heildarkerfisbreytingu.

Ég hef aldrei sagt að ekki hafi verið ástæða til þess að taka verulega til hendinni í ríkisfjármálunum í kjölfar þess að bankarnir hrundu, það þurfti svo sannarlega, enda var Sjálfstæðisflokkurinn strax kominn með efnahagsáætlun í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn haustið 2008 til þess að undirbúa þær aðgerðir. En berum það saman í eðlilegu samhengi við það sem er verið að gera hér. Hér er verið að lækka skatta. En málflutningur hv. þingmanns og flokksmanna hans er sá að verið sé að kynna (Forseti hringir.) skattahækkun.