144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða frumvarp á þskj. 2 og ekki annað. Þó vil ég taka fram að ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili stóð í ströngu og ég viðurkenni það sem hún gerði gott, en margt gerði hún slæmt. En ég viðurkenni að það var ekki auðveldur barningur og gef þeim mitt hrós fyrir það.

Umræðan hér hefur því miður verið á dálítið neikvæðum nótum, herra forseti, ég verð nú að segja eins og er. Mér finnst þetta nefnilega sérstaklega mikið fagnaðarefni. Ég er viss um að þingmenn og fylgjendur flestra stjórnmálaflokka eru ánægðir með að vörugjöldin séu lögð af. Ég hugsa að fáir mæli því flókna, dýra og ósanngjarna kerfi bót. Ég efast um að nokkur mæli því bót. Mér finnst því að hv. þingmenn ættu rétt aðeins að taka upp brosið og brosa pínulítið framan í veröldina af því að við erum að leggja niður vörugjöldin.

Umræðan hefur mjög mikið snúist um matarskattinn sem er íþyngjandi fyrir fjölskyldurnar, minna en vörugjöldin eru jákvæð fyrir fjölskyldurnar. Það merkilega er að vörugjöldin eru líka á matvörum. Það hefur verið reiknað út að matvörur muni ekki hækka um 4,7% eins og hækkun virðisaukaskattsins gefur tilefni til, heldur muni þær hækka um 1,6–2,6%. Þetta er einhvers staðar á þessu bili. Kjúklingakjöt sem kostar 1.000 kr. kílóið mun hækka um 47 kr. Ég hugsa að þegar upp er staðið verði þetta ekki eins óskaplegt og sumir halda, að þeir bara geti ekki farið út í búð og keypt mat. Þannig getur maður áfram talið.

Frumvarpið léttir sköttum af heimilunum um 20 þús. kr. á hvert heimili, að meðaltali að sjálfsögðu. Þegar barnabæturnar bætast við eru þetta 28 þús. kr. á hvert heimili, sem staða þeirra batnar. Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að við getum verið ánægð með þetta og glaðst. Þetta er skattalækkun.

Svo er annað: Það verður gífurleg einföldun. Ég hugsa að 200 manns vinni í því að leggja vörugjöldin á. Í öllum innflutningsfyrirtækjum situr fólk sem veit allt um vörugjöld, aðdáunarverð þekking. Hinum megin eru svo tollverðir sem vita allt um vörugjöld, aðdáunarverð þekking. Því miður verð ég að segja, eins og þegar erfðafjárskatturinn var lagður af, að það tapast heilmikil þekking við að leggja vörugjöldin niður. Öll sú þekking sem þetta ágæta fólk hefur aflað sér um vörugjöld dettur dauð niður og verður einskis virði. En við þurfum náttúrlega að sjá til þess að störf skapist annars staðar, það þarf að vinna að einhverju sem er þjóðhagslega hagkvæmt en ekki vera að reikna út skatta.

Hér hefur nokkuð verið rætt um fyrirvara hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Ég bendi á að tekjuhluti fjárlagafrumvarps hefur aldrei komið svona snemma fram, aldrei. Þess vegna er kannski viðbúið að menn séu ekki eins vel inni í því þegar það er kynnt og ella. Það gerir að verkum að menn geta ekki samþykkt það svona blint, í þeim ágæta þingflokki háttvirtum. Það er fyrir mér skýringin á því af hverju framsóknarmenn eru með fyrirvara, ekki það að þeir séu á móti fjárlagafrumvarpinu sem slíku, en tekjuhlutinn hefur aldrei verið lagður fram svona snemma.

Ein kona hringdi í mig í morgun, önnur sendi mér e-mail í gær, og sagðist aldrei hafa keypt heimilistæki. Önnur þeirra hafði fengið heimilistæki notuð frá börnunum sínum, sem eru þá væntanlega með betri lífskjör. Ég benti henni á að nú mundu þau væntanlega kaupa hraðar og oftar heimilistæki af því þau lækka svo mikið í verði, 17–20%, og þess vegna fengi hún nýrri tæki í framtíðinni. Hin leigir íbúð með heimilistækjum og ég geri ráð fyrir að inni í leigunni sé verðið á heimilistækjunum. Ef það lækkar um 20%, útreikningar sýna reyndar að húsnæði (Forseti hringir.) mun lækka um 1% út af þessum vörugjaldslækkunum, þá nýtur hún þess þeim megin.