144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir þessi orð þingmannsins því að það verða vissulega dómínóáhrif þegar saumað er að mörgum stöðum af hálfu hins opinbera úti á landsbyggðinni. Það hefur þau áhrif að þá hriktir í stoðunum þegar störf sem fyrir eru í opinbera geiranum eru skorin niður eins og hv. þingmaður nefndi. Kannski á eitt stöðugildi að vera 50%, annað 70% og það segir sig sjálft að það er ekki mikill áhugi hjá fólki að binda sig yfir slíkum störfum.

Mér finnst vanta algerlega heildaryfirsýn ríkisstjórnar yfir mannlífið í þessu landi. Það er eins og menn haldi að allt sé eyland. Ef maður getur keypt sér flatskjá þá hljóti að vera allt í lagi að hækka matarkörfuna hjá manni á mánuði af því að fólk hljóti að hafa efni á því að nýta sér afslátt af sjónvarpi, hvort sem það þarf á því að halda að kaupa sér sjónvarp eða ekki. Menn verða að horfa á þessa hluti, stöðu landsbyggðarinnar, stöðu láglaunafólks, stöðu atvinnulausra í heildarsamhengi ef menn vilja ekki að hér búi, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi í ræðu, tvær þjóðir í þessu landi. Það stefnir allt í að hér verði aðgreining á milli láglaunafólks og hátekjufólks, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Viljum við að þjóðfélagið þróist þannig að það búi margar stéttir í þessu landi? Við vinstri græn viljum það ekki og ég vona að einhverjir framsóknarmenn og vonandi sjálfstæðismenn líka geti tekið undir það.