144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Að mínu mati á heilsugæslan að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga þegar þeir þurfa á læknisþjónustu að halda, sama hvort um líkamleg eða andleg veikindi er að ræða. Allir sem þurfa læknisþjónustu eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu heilsugæslunnar sama hvar á landinu þeir búa. Heilsugæslan á jafnframt að fræða og upplýsa þá sem til hennar leita, en auk þess á hún að kenna einstaklingum að þeir bera nokkra ábyrgð á heilsu sinni. Þetta eru að mínu mati helstu markmið heilsugæslunnar og eiga þau við sama hvort heilsugæslan sé rekin á vegum ríkis eða sveitarfélaga.

Það mikilvæga í þessu samhengi er að heilsugæslan hafi það fjármagn sem til þarf svo hún geti veitt þá þjónustu sem henni ber að veita.

Að mínu mati flokkast heilsugæslan undir grunnþjónustu í samfélagi okkar. Hún er einn þeirra þátta sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu. Öll viljum við geta fengið læknisþjónustu í heimabyggð þegar á þarf að halda. Ég held að ég sé ekki að tala óvarlega þegar ég segi að mikið álag sé á heilsugæslustöðvum víðs vegar um landið. Víða virðist vera erfitt að fá lækna til starfa og það þekkist á stórum svæðum að eingöngu einn læknir sé á vakt og hef ég heyrt áhyggjuraddir margra vegna þessa.

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra er ákveðinn í að láta sameiningar á heilbrigðisstofnunum eiga sér stað þrátt fyrir að mótmæli hafi borist úr ýmsum áttum. Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra hver markmið með sameiningu heilbrigðisstofnana eiga að vera. Efla markmiðin heilsugæsluna í landinu? Á sameiningin að styrkja þá þjónustu sem nú er veitt? Hvernig skal ná þessum markmiðum ef það er raunin?

Að lokum vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra að hafa það samráð við íbúa og sveitarstjórnir sem ætlast var til á þeim svæðum þar sem sameiningin á að fara fram.