144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í fjárlagaumræðunni síðastliðið föstudagskvöld kl. 21.22 sagði hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í andsvari við mig að meginhlutverk okkar í heilbrigðiskerfinu væri að tryggja að fólk ætti þar bæði greiðan aðgang óháð efnahag og afkomu og að langveikir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að kostnaður safnaðist þannig upp að ekki yrði við það ráðið. Þannig að meginmarkmiðið í heilbrigðiskerfinu, út af því að við erum að ræða stefnu í heilbrigðismálum hér í dag, er að tryggja að fólk eigi þar meðal annars greiðan aðgang óháð efnahag og afkomu.

Mig langar að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé sammála því að þetta sé eitt af meginmarkmiðunum. Ég spyr vegna þess að drjúgur hluti landsmanna neitar sér um heilbrigðisþjónustu einmitt á grundvelli efnahags, hefur ekki efni á því.

Staðan í dag er þannig að meginmarkmiðinu, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins setur það upp, er ekki náð, að fólk hafi greiðan aðgang óháð efnahag. Ég vil endilega biðja heilbrigðisráðherra að impra á þessu, hvort þetta sé ekki meginmarkmiðið og hvað hann hyggist gera til þess að ná fram þessu meginmarkmiði.