144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágætisræðu um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps.

Hv. þingmaður hjó eftir því í ræðu sinni í hverju sá fyrirvari fælist sem hefur verið ræddur, sem framsóknarmenn settu við frumvarpið. Ég vil gjarnan ræða það í lok þessarar umræðu og ítreka, svo það sé nú sagt, að í fjárlögum birtist efnahagsstefna og ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar. Tekjur og útgjöld ríkissjóðs og samspil þessara þátta hefur áhrif á hagkerfið allt, á okkur öll.

Fjárlögin eru lögð þannig fram af ríkisstjórninni og af báðum flokkum, það er alveg á hreinu. Ég kom inn á það, bæði í ræðu er varðar fjárlagafrumvarpið sjálft og tekjuhliðina, og fjallaði um út frá ágætisgreiningu sem er í tekjufrumvarpinu að verið er að skilja eftir 3,7 milljarða í hagkerfinu. Þetta er í fullu samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um að bæta hag og kjör heimila og fyrirtækja.

Mig langar að skilja eftir spurningu fyrir seinna andsvar hv. þingmanns um Vinnumálastofnun: Finnst þingmanninum eðlilegt þegar atvinnuleysi fer minnkandi að hún dragi saman?