144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum í frumvarpi nr. 2, tekjufrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra, svokölluðum bandormi. Ég kem hingað upp sem formaður velferðarnefndar því að í þessum bandormi eru breytingar á fimm lagabálkum sem heyra undir velferðarnefnd.

Síðastliðið haust sendi efnahags- og viðskiptanefnd ekki frumvarpið til umsagnar og meðferðar hjá velferðarnefnd, þ.e. þann hluta sem lýtur að henni, og ætlaði sér — ég skil eiginlega ekki hvernig það kom til — að fella úr gildi einn lagabálk á sviði nefndarinnar og stytta fæðingarorlofið án þess að ræða það sérstaklega við velferðarnefnd. Við komum reyndar inn á síðustu metrunum en það var í andstöðu við vilja meiri hluta þingsins. Ég kem því hingað upp og ætla að byrja á að óska eftir því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd óski eftir því að velferðarnefnd taki að sér umfjöllun um þá hluta sem heyra undir málefnasvið nefndarinnar. Þetta eru grundvallarmál og það er eðlilegt að við sem erum að fást við þessi mál dagsdaglega séum fengin til þess að vinna verkið.

Hér eru atriði sem ég vil ræða og varða miklar breytingar sem munu koma mjög illa niður á atvinnulausum og sjúklingum sem nota lyf. En nú gerist það, sex árum eftir hrun þegar atvinnuleysi fer minnkandi, að ríkisstjórnin telur atvinnulausa akkúrat hópinn til þess að taka á sig enn frekari niðurskurð í ríkisfjármálum.

Við lögðum gríðarlega mikið í það að tryggja að ekki þyrfti að skera niður atvinnuleysisbætur og að því komu aðilar vinnumarkaðarins líka, varðandi hækkun á tryggingagjaldinu. Þær voru lengdar um ár á tímabili og það var mikil vinna lögð í að búa til úrræði, bæði vinnumarkaðstengd sem og tengd menntakerfinu, til að fólk sem hafði misst atvinnuna í tengslum við hrunið hefði leiðir til þess að fá ný störf eða afla sér færni og menntunar á nýjum vettvangi.

Það er ekki farið almennilega yfir það af hverju þetta er talið vera hópurinn sem eigi að taka á sig rúmlega milljarða skerðingu. Þetta er afturvirkt þannig að þeir sem eru atvinnulausir núna og hafa verið í um tveggja ára skeið, þessar breytingar ná til þeirra.

Ég ætla að viðurkenna það hér í þessum ræðustól að við lengdum atvinnuleysisbæturnar í fjögur ár, enda töldum við að það væri nauðsynlegt vegna þess umfangs atvinnuleysis sem var, sem við með markvissum hætti náðum niður svo að eftirtektarvert er. Ég er farin að efast um að það hafi verið rétt í raun og veru að stytta tímabilið aftur. Enn frekar er ég sannfærð um að þetta hefði þurft að vara um það bil áratug eftir svona mikið kerfishrun.

Hér er einfaldlega verið að taka vanda íslenska hagkerfisins og vanda íslenska skólakerfisins þar sem ekki hefur verið menntað fólk í rétt störf í langan tíma í aðdraganda hrunsins — það er verið að taka þann kerfisvanda og gera hann að vanda einstaklinganna sem í honum lentu. Auðvitað er þetta vandi þeirra einstaklinga og mjög alvarlegur vandi, en það er verið að taka kerfisvanda, ríkið er að afsala sér ábyrgð á þessum kerfisvanda og setja hann yfir á einstaklingana.

Það kemur ekkert sérstaklega fram hvað eigi að taka við, en maður sér á málaskrá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að fram undan er að breyta fjárhagsaðstoðarkerfi sveitarfélaganna í einhvers konar míníatvinnuleysistryggingakerfi með skilyrðingum og alls kyns grundvallarbreytingum á öryggisneti landsins.

Ég held að þessi ríkisstjórn ætti að láta vera breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu í bitum. Hún ætti heldur að leggja það fram allt á sama tíma svo að við getum rætt þá heildarmynd sem blasir þar við. Mér geðjast ekki að þeirri mynd og ég vona að ég muni aldrei þurfa að vera innan þess kerfis á meðan hægri menn eru hér við völd.

Þetta er eðlilegt að velferðarnefnd fjalli um enda eru málefni vinnumarkaðarins og lög um atvinnuleysistryggingar á málefnasviði nefndarinnar.

Svo langaði mig að koma hér inn á breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Þar á samkvæmt reglugerð, sem þarf ekki að koma hér í gegn, að hækka viðmiðunarfjárhæðir í greiðsluþátttökukerfinu og það á líka með lagabreytingu að fjölga lyfjaflokkum innan kerfisins. Það á að setja þar inn svokölluð S-merkt lyf að hluta. Það er sagt að það séu ekki lyf sem gefin eru inni á heilbrigðisstofnunum heldur utan heilbrigðisstofnana, en eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór yfir í ræðu sinni þá er mjög óljóst hvar þau skil liggja og fram hefur komið á fundi í velferðarnefnd að hæstv. heilbrigðisráðherra gat ekki gert okkur grein fyrir því hver þau viðmið yrðu. Þarna er um að ræða hagsmuni fólks með alvarlega sjúkdóma, sem skipta tugþúsundum.

Hér hefur líka heyrst í ræðustól, m.a. frá hæstv. heilbrigðisráðherra, að það hafi alltaf staðið til að taka þennan lyfjaflokk inn. Ég veit ekki hjá hverjum það stóð til en þetta mál var í meðförum þingsins um allnokkurt skeið og það var aldrei ásetningur í þeirri vinnu að S-lyfin kæmu þarna inn. Ásetningurinn var öðru fremur að fjölga lyfjum sem ekki eru S-merkt inn undir þakið sem fólk borgar nú að fullu, eins og pensilín fyrir fullorðna. Hvað S-merktu lyfin varðar veit ég ekki hvaða „alltaf“ hæstv. ráðherra vísar í. Það er kannski jafn óljóst og það hvernig þetta kerfi á síðan að virka og hverja það á að hafa áhrif á.

Ég fór yfir það í ræðu minni í gær að við jafnaðarmenn værum mjög ósáttir við þá stefnubreytingu sem boðuð er í skattkerfinu, þá stefnubreytingu sem lýtur að því að draga úr jöfnunaráhrifum skattkerfisins, ekki síst tekjuskattskerfisins, en virðisaukaskattskerfisins að þessu sinni. Þessar breytingar á atvinnuleysistryggingum sem og sjúkratryggingum ýta enn frekar undir þennan ójöfnuð. Það er ekki eins og hér sé verið að verjast í nauðvörn — nei, það er verið að forgangsraða með mjög skýrum hætti. Eins og ég fór yfir í gær er sleppt að leggja á auðlegðarskatt, það er búið að lækka veiðigjöld og það er búið að ákveða að ráðstafa 72 milljörðum til þess að lækka skuldir. Sumt af því er bráðnauðsynlegt en það er ekki endilega verið að lækka skuldir þeirra sem helst hafa þörf á því heldur hefur sýnt sig í þeim gögnum sem þó liggja fyrir að mikið af þessum fjármunum mun renna til fólks með miklar eignir og háar tekjur.

Það verður mjög fróðlegt þegar fyrir liggur og við fáum að sjá hvert þessir peningar renna í raun og veru og hvaða heimili njóta góðs af þeim. Verða það heimilin sem fá ekki mótvægisaðgerðir í formi barnabóta því að þær halda ekki verðgildi miðað við það sem var 2013? Verða það heimilin sem fá ekki hækkað fæðingarorlof? Verða það heimilin sem eru að lenda í styttra atvinnuleysisbótatímabili eða sem fá ekki hækkaðar húsaleigubætur sínar? Við vitum að það rennur ekki til þeirra heimila. Verða það heimilin sem eru að lenda í auknum lyfjakostnaði? Verða það heimilin sem fá minni niðurgreiðslu á hjálpartækjum eftir að breytingarnar voru gerðar um síðustu áramót? Verða það heimilin sem fá á sig aukinn kostnað vegna heilbrigðisþjónustu? Eða eru það lífeyrisþegarnir sem trúðu því að það ætti að bæta þeim upp að fullu skerðingarnar sem þeir höfðu orðið fyrir frá 2009? Það var auðvitað ekki rétt; það voru gerðar vissar umbætur hér síðasta sumar en síðan eru það lagabreytingar frá fyrri ríkisstjórn sem tóku gildi um síðustu áramót sem hafa hækkað ráðstöfunartekjur hjá lífeyrisþegum.

Því miður er þetta frumvarp í anda annarra frumvarpa sem við höfum séð frá hæstv. fjármálaráðherra síðan hann tók við völdum. Það er með markvissum hætti verið að umbuna þeim sem enga þörf hafa fyrir umbun á kostnað þeirra sem helst þurfa á stuðningi ríkisvaldsins að halda og sem tóku á sig byrðar af hruninu með ýmsum hætti og hefðu átt að vera áfram fyrstir í forgangi þegar hægt var að veita meira fé úr ríkissjóði.

Ég ítreka það til þeirra sem eiga sæti í efnahags- og viðskiptanefnd að tryggja að velferðarnefnd fái þetta frumvarp til umfjöllunar enda er hér um stefnubreytingu að ræða í mikilvægum málaflokkum á sviði velferðarmála, ekki síst vinnumarkaðsmála er lúta að atvinnuleysistryggingum og sjúkratryggingum er lýtur að kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna lyfjanotkunar.