144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki fullyrt með hvaða hætti tekið var tillit til þess gjalds sem þingmaðurinn vísar til á rafeindatæki, en ég tel augljóst af fjárhæðunum sem eru undir að það geti ekki haft nema mjög óveruleg áhrif ef einhver, enda leiðir það af eðli máls að við erum að fella niður vörugjöld samtals upp á 6,5 milljarða, þar af er helmingurinn í raftækjum, byggingarvörum, varahlutum og öðrum slíkum hlutum. Í þessu tilviki erum við með gjald sem á í heildina að skila 100 millj. kr., þannig að bara af fjárhæðasamhenginu sýnist mér þetta nokkuð ljóst.

Mér heyrist að öðru leyti að hv. þingmaður sé upp að vissu marki að blanda saman tvennu, þ.e. annars vegar greiðsluþátttöku vegna lyfja og hins vegar þátttökukostnaði vegna langveikra. Sá kostnaður getur fallið til út af svo mörgu — út af heimsóknum til lækna, út af myndatökum, út af sýnatökum og rannsóknum og líka vegna lyfja. Í þessu máli er eingöngu verið að taka S-merktu lyfin inn í greiðsluþátttökukerfið. Mér finnst það sanngjarnt. Mér finnst það auka jafnræði í kerfinu.

Verðum við áfram og eftir sem áður með vanda vegna langveikra? Já, hann verður til staðar. Þann vanda er verið að skoða sérstaklega á vegum velferðarráðuneytisins. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur tekið þátt í því starfi og leitt það. Það snýr að því að koma á nýju fyrirkomulagi greiðsluþátttöku sjúklinga almennt í heilbrigðiskerfinu.