144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að velta nokkru fyrir mér. Mér hefur lengi verið það hugleikið að skattgreiðendur borga í einn risastóran ríkissjóð, jafnvel eyrnamerktar tekjur eins og nefskattur sem á að fara til Ríkissjónvarpsins og nefskattur sem á að fara í það að byggja upp vegakerfið o.s.frv. Þar er hrært í þessu öllu saman og ausið eins og mönnum sýnist. Svo þarf að skera niður. Svo kemur hrun, skellurinn lendir á ríkissjóði og þá þarf að fara að skera niður í grundvallarmálaflokkum eins og í heilbrigðismálunum sem flestir vilja setja í forgang.

Hvað finnst hv. þingmanni? Fyrst við getum verið með lífeyristryggingar í sjóðum sem ekki eru í ríkissjóði, gætum við þá verið með sams konar fyrirkomulag þegar kemur að heilbrigðiskerfinu? Jú, það verður efnahagshrun, það minnkar náttúrlega í sjóðunum, sjóðirnir tapa á fjárfestingum sínum að einhverju leyti, en það er ekki endalaust hægt að ganga í þá. Og það er eins með lífeyristryggingar, ríkið þarf að sinna stjórnarskrárskuldbindingum sínum gagnvart heilbrigði fólks þannig að það mun á endanum þurfa að hlaupa undir bagga. Alla vega væri þarna verið að setja eggin í fleiri körfur. Hvað sýnist hv. þingmanni um það?