144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningsstyrkur til starfsmanna Fiskistofu.

[15:32]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ráðherrann hlýtur að gera sér grein fyrir því að með þessari ákvörðun er verið að gefa fordæmi sem ríkinu ber þá að fylgja gagnvart öllum öðrum starfsmönnum ríkisins sem þurfa að flytjast milli landshluta vegna starfa sinna. Það væri þá full ástæða til að kostnaðarmeta það. Ráðherrann svaraði því hins vegar ekki hvort sú þýðing sem þetta hefur inn í framtíðina hefði verið kostnaðarmetin, en það væri náttúrlega nauðsynlegt fyrir þingið, mundi ég halda, að hafa slíkar upplýsingar undir höndum.

Hitt er annað mál að það er umhugsunarefni hvernig staðið hefur verið að þessum flutningsáformum Fiskistofu og látið eins og hægt sé að flytja fólk eins og búpening með stofnunum milli landshluta, eins og það sé einfalt mál að fólk rífi sig upp og líf sitt allt, maka sína úr öðrum störfum, börn sín úr skólum, yfirgefi foreldra og ættmenni og flytjist milli landshluta og að 3 milljónir (Forseti hringir.) nægi til þess að ná því á þann öngul. Það segir kannski líka sitt um það hvernig að þessu öllu hefur verið staðið og hversu (Forseti hringir.) vanhugsað þetta er þegar þarf að fara út fyrir almennan lagaramma vegna aukins flutningsstyrks (Forseti hringir.) til starfsfólks.