144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum næsta árs er víða talað um aukna framleiðni og nýsköpun hjá stofnunum ríkisins. Þetta er sannarlega mikilvægt og bætir rekstur ríkisstofnana en getur verið nokkur áskorun fyrir starfsmenn og stjórnendur vegna vísbendinga sem við höfum um líðan ríkisstarfsmanna um þessar mundir.

Við vitum að starfsumhverfið hefur úrslitaáhrif á það hvernig okkur tekst að vera skapandi í vinnu og hvernig okkur tekst að velja vinnulag sem er skilvirkt og eykur framleiðnina. Á árunum fyrir 2008 voru kannanir á umhverfi ríkisstarfsmanna nokkuð tíðar en færri undanfarin ár, en gefa vísbendingar um verulega aukið álag meðal starfsfólks og stjórnenda á vinnustöðum ríkisins, aukna vanlíðan og merki um kulnun.

Einelti er líka sérstakt áhyggjuefni þar sem fjórðungur svarenda í nýlegri könnun hafði orðið vitni að einelti á vinnustöðum ríkisins. Einn af hverjum tíu hafði orðið fyrir einelti á vinnustað.

En það er samt margt sem starfsfólk og stjórnendur geta gert til að bæta starfsumhverfið, oft án aukins kostnaðar, vegna þess að umbætur á starfsumhverfi snúast oft um viðhorf og forgangsröðun. Í ljósi þessa vil ég hvetja og skora á hæstv. fjármálaráðherra og ráðherra annarra ráðuneyta að hlutast til um að aðstæður og starfsumhverfi opinberra starfsmanna verði bætt. Hér má til dæmis nýta nýjar og vandaðar tillögur fyrir forstöðumenn ríkisstofnana sem flestar snúast um viðhorf stjórnenda og starfsfólks og um forgangsröðun í mannauðsmálum ríkisstarfsmanna.