144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni og treysti nefndinni fullkomlega til að fara vel yfir málið og gefa sér þann tíma sem þarf til. Ég minni þó á álit ESA sem var gefið út í sumar um að við værum með ákveðna svipu yfir okkur til að innleiða þetta þar sem við höfum ekki gert það með réttum hætti og að við værum farin að draga lappirnar í því. Ég er hins vegar á því að við eigum ekki að gefa afslátt af þeirri vinnu sem þingið þarf auðvitað að inna af hendi til að vera fullvisst um að sú löggjöf sem við ætlum að festa hér í sessi sé gild og góð og þar með jafnræði gagnvart almenningi og fyrirtækjum.

Varðandi það að sveitarfélög gætu hugsanlega farið með misjöfnum hætti um þetta þá er það svo að ef eitt sveitarfélag eða önnur fara að túlka reglurnar sýnu harðar en önnur mun það væntanlega hafa það í för með sér að þeir aðilar sem hyggja á slíkar framkvæmdir leiti frekar til allra hinna sveitarfélaganna. Eins ef eitthvert sveitarfélag fer frjálslega með þær leiðbeiningar sem það hefur og gerir ekki eðlilegar kröfur þá er væntanlega hægt að kæra slíkar afgreiðslur og fá þar af leiðandi á það aðra sýn en eingöngu niðurstöðu sveitarfélagsins.

Ég held að þetta sé kannski eins og svo margt í okkar heimi. Við erum með milli 70 og 80 sveitarfélög og þau fjalla auðvitað um marga þætti, gera það ekki nákvæmlega með sama hætti öll en ef þau uppfylla lögin og allir sitja við sama borð þá óttast ég ekki þó að það verði einhver blæbrigðamunur á einstaka afgreiðslu.