144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Tveir einstaklingar hafa stýrt tæplega 50 fyrirtækjum í gjaldþrot á nokkrum árum, jafnvel úr fangelsi. Þetta eru svokallaðir útfararstjórar. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa sest í stjórnir rétt fyrir gjaldþrot og leyst þar með raunverulega eigendur undan því að þurfa sjálfir að leggja nafn sitt við gjaldþrotið. Oft tengjast þessi mál undanskotum eigna.

Þetta kom fram í sláandi umfjöllun Helga Seljan í Kastljósinu í vor. Þessir tveir einstaklingar sátu jafnvel saman í stjórnum fyrirtækja. Skattrannsóknarstjóri segir að loka verði gati í lögum sem færast í aukana að menn nýti sér. Það er ekkert því til fyrirstöðu að sömu menn geti sest í stjórnir óteljandi fyrirtækja svo framarlega sem þeir uppfylla hæfnismat sem nauðsynlegt er að herða til muna. Það er ein leið til að sporna gegn kennitöluflakki. Það þarf líka að gera fjölmargt annað.

Ég hef áður talað um kennitöluflakk úr þessum stól, því miður fyrir daufum eyrum. Sumir segja að þetta sé ekkert eiginlegt vandamál. ASÍ hefur hins vegar metið það svo að tjón vegna kennitöluflakks geti numið um 50 milljörðum kr. á ári. Það er því fullkomlega óábyrgt að fjalla um þetta mál af einhverri léttúð. Stefnan er að gera einstaklingum auðveldara að stofna félag. Erfitt er að sjá hvernig þær hugmyndir fara saman við tillögur ASÍ í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Sambandið telur nauðsynlegt að taka upp strangari reglur varðandi hæfi einstaklinga til að vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð. Takmörk verði sett á nafnbreytingar félaga og þá er lagt til að þeir sem ítrekað gerast sekir um kennitöluflakk missi hæfi tímabundið til að stofna eða vera í forsvari fyrir hlutafélög eða einkahlutafélög.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur óskað eftir sérstakri umræðu um kennitöluflakk sem verður á morgun. Því framtaki hennar ber að fagna.