144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita hefur Samkeppniseftirlitið fellt úrskurð sinn í máli sem er mjög alvarlegt þar sem fyrirtæki í mjög sterkri stöðu er að raun að beita sér gegn neytendum. Það hefur skapast af því nokkur umræða. Ég vonast til þess að það verði til þess að við ræðum viðskiptamál hér í þinginu og tökum mál verslunarinnar og neytenda föstum tökum.

Ég flyt í dag ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, í þriðja frekar en fjórða skipti, þingsályktunartillögu um viðskiptastefnu Íslands sem fjallar ekki einungis um viðskiptamál innan lands heldur ekki síst á milli landa. Þó svo að við höfum rætt ýmislegt í stjórnmálum á Íslandi höfum við einhverra hluta vegna ekki rætt mikið um þessi mál. Hver eru markmið okkar þegar kemur að viðskiptastefnu? Erum við með viðskiptastefnu? Ég er alveg sannfærður um að ef við förum í þá umræðu og vinnu getum við bætt hag neytenda mjög í þeim efnum og ekki aðeins neytenda, ég held við getum stýrt efnahagslífi verulega. Það er mín sannfæring að það að opna markaði og reyna að ná samningum um að komast á aðra markaði sé það gott fyrir alla. Við verðum hins vegar að móta okkur stefnu og við verðum að ræða þetta. Ef við viljum lækka til dæmis matvælaverð getum við auðvitað gert það með því að opna frekar á markaði okkar, en við þurfum að ræða það.

Ég vonast til þess að sérstaklega þeir hv. þingmenn sem hafa rætt þetta og haft áhyggjur af þessu á undanförnum dögum taki þátt í umræðunni í dag. (Forseti hringir.) Það er svo sannarlega tækifæri til þess því að við erum að flytja hér þingsályktunartillöguna okkar, enn og aftur. Ég er sannfærður um (Forseti hringir.) að hún fari í gegn núna.