144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hv. þingmaður líklega tekið eftir því, þó að hann hafi verið jafn stutt á þingi og ég, að svona hlutir gerast endurtekið. Það eru frumvörp sem skyndilega verður að klára, jafnvel þó að það hafi legið fyrir lengi að slíkt þurfi að gera. Ef ég, með leyfi forseta, má segja það á ensku: „The reocurring crisis is a symptom of a deficiency of organization“, þ.e. þegar sama krísan er sífellt að koma upp (Gripið fram í.) þá er greinilega einhver skortur á skipulaginu. Ég vil spyrja hvort þingmaðurinn sé ekki sammála þessu og hvort honum finnist ekki svolítið einkennilegt að hér á hv. Alþingi og í vinnu ráðuneytanna sé skipulagið ekki betra en svo að það sé sífellt að koma upp sama krísan. Þó að það sé vitað löngu fyrir fram lendum við samt sem áður í því á síðustu stundu að það þurfi að afgreiða frumvörp sem við vitum ekkert endilega mikið um. Kannski vitum við meira um þetta mál af því að það er bara verið að fresta gildistöku ákvæðis, en oft þurfum við að afgreiða frumvörp í flýti þó að það hafi verið góður fyrirvari og við hefðum átt að vita það löngu áður að það hefði þurft að afgreiða atriði sem alls konar hlutir geta falist í. Og ég fer aftur í enskuna: „The devil is in the details“ eða djöfullinn er í smáatriðunum.