144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

6. mál
[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er margt til bóta og við píratar munum styðja það. Eins og fyrri ræðumaður hafði á orði einfaldar það mikið þetta ferli. Hins vegar bætist annað við líka, það að hið opinbera getur greitt fyrir þau dómsmál sem þessir hagsmunaaðilar neytenda fara í á grunni laganna. Það er mjög gott.

Aftur á móti erum við með athugasemd við frumvarpið. Það uppfærir lögin á Íslandi út frá þeim tilskipunum og reglum sem við þurfum að uppfylla samkvæmt EES-samningnum en það er ekki farið í að uppfæra eitt af mikilvægu atriðunum sem þessi lög á Íslandi eiga að uppfylla sem er að til séu úrræði til að beita þessu lögbanni. Hæstiréttur hefur dæmt í máli á grundvelli þessara laga til að tryggja þá heildarhagsmuni neytenda að farið skuli eftir íslenskum lögum um lögbann í einkamálum sem heimilar þar af leiðandi ekki lögbann ef þess er leitað á grunni þessarar innleiðingar frá Evrópusambandinu. Það á einmitt að heimila á grundvelli heildarhagsmuna. Þarna eru íslenskir dómstólar klárlega að dæma að ekki sé heimilt að beita þeim úrræðum eins og þau eru í lögum núna þrátt fyrir að það eigi að vera heimilt samkvæmt tilskipununum frá Evrópusambandinu. Þá ætti að sjálfsögðu að uppfæra lögin í því tilliti og fyrst við erum að uppfæra þau til að við séum í samræmi við Evrópulöggjöfina ætti að sjálfsögðu að uppfæra þau í þessu tilliti líka.

Við píratar erum með breytingartillögu sem þjónar þeim tilgangi að uppfylla þau skilyrði tilskipunar 93/13/EBE að til staðar skuli vera raunhæf úrræði fyrir neytendur og samtök þeirra til að hindra og stöðva beitingu óréttmætra skilmála, auk þess að tryggja að óréttmætir skilmálar séu ekki skuldbindandi fyrir neytendur eins og EFTA-dómstóllinn hefur áréttað í ráðgefandi áliti sínu í máli E-25/13.

Þó að það stæði í lögum að ekki þyrfti að fara í dómsmál áður en heimili fólks yrðu seld nauðungarsölu dæmdi Evrópudómstóllinn að á Spáni væri það ólögmætt. Á Íslandi er sett í samningsskilmála að það megi klára nauðungarsölur þrátt fyrir að þess sé krafist að málið fari fyrst til dómstóla. Þetta er í samningum. Í Evrópu var það í landslögum, en samt sagði Evrópudómstóllinn að það væri ólöglegt, það mætti ekki gera þetta. Nú er búið að reyna að leita lögbanns til að stöðva slíkar nauðungarsölur á grundvelli þessa en það dugir ekki á Íslandi þannig að það þarf að uppfæra lögin og þessi breytingartillaga tekur á því.

Fram til þessa hefur dómaframkvæmd samkvæmt lögum um lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda strandað á því að skaðabótaréttur einstakra neytenda hefur staðið í vegi fyrir því að lögbann nái fram að ganga vegna ákvæða 3. mgr. 24. gr. almennra lögbannslaga, nr. 31/1990. Það er hins vegar ekki í samræmi við það sem kemur fram í formála tilskipunar 98/23/EBE eða 2009/22/EB, um að einkamálaréttarlegir hagsmunir einstakra neytenda eigi að vera óháðir vernd heildarhagsmuna þeirra enda sé um eðlisólíka hagsmuni að ræða.

Þetta er alveg skýrt. Við gætum núna verið að uppfæra þessa hluti alla leið til að þeir væru í samræmi við tilskipanir frá Evrópusambandinu að öllu en ekki bara þann hluta sem það gerir í dag — nema náttúrlega við samþykkjum breytingartillöguna frá okkur pírötum sem er að sjálfsögðu vel unnin af Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafa hvað best staðið sig í réttindavernd að þessu leyti.

Ég ætla að lesa athugasemdir við breytingartillöguna. Það má nota bene ekki vera með langar athugasemdir við breytingartillögur, helst ekki nema tíu línur. Það er víst túlkun þingfundaskrifstofunnar á orðunum stutt greinargerð í þingsköpum þannig að ég les bara alla athugasemdina sem hefði átt að fylgja. Ég les hana upp í ræðustól í staðinn. En fyrst greinargerðin eins og hún birtist með breytingartillögunni:

Tilgangur breytingartillögu þessarar er að skerpa á tilteknum atriðum í hinni umræddu löggjöf sem hafa sökum óskýrleika staðið í vegi fyrir skilvirkri framkvæmd þeirra reglna sem í henni eiga að felast í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Svo vildum við bæta við:

Í formála tilskipunar 93/13/EBE, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, kemur fram að teljist einstaklingar eða samtök eiga réttmæta hagsmuni í neytendaverndarmáli samkvæmt lögum aðildarríkis verði þessir aðilar að eiga kost á því að leita réttar síns í málum út af skilmálum sem ætlað sé að standa almennt í neytendasamningum, einkum óréttmætum skilmálum, annaðhvort fyrir rétti eða stjórnvaldi þar til bæru að kveða upp úrskurði um kvartanir eða málarekstur. Þá segir þar að dómstólar og stjórnvöld aðildarríkjanna verði að eiga tiltækar réttar og árangursríkar leiðir til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í neytendasamningum.

Nú ætla ég aðeins að víkja frá þessu og benda á að á sínum tíma var til staðar hjá Samkeppnisstofnun sú heimild í íslenskum lögum að stjórnvald á Íslandi geti vísað einhliða frá óréttmætum skilmála í neytendasamningi. Þegar það hlutverk færðist aftur á móti frá Samkeppnisstofnun að hafa eftirlit með og beita þessari lagaheimild, Samkeppnisstofnun lögð niður, Samkeppniseftirlitið stofnað og hluti af verkefnum stofnunarinnar færðist til Neytendastofu, segir kærunefnd neytendamála að heimildin til að framfylgja lögunum hafi ekki færst yfir til Neytendastofu. Neytendastofa reyndi að gera þetta 2010. Hún sagði: Þetta eru óréttmætir skilmálar, þeim á að vísa til hliðar. Það var kært til kærunefndar neytendamála sem sagði: Nei, það er bara ekki heimilt.

Ég lagði í vor fram lagafrumvarp um að þessi heimild yrði þá sett upp hjá Neytendastofu. Að sjálfsögðu komst það ekki á dagskrá. Ég er búinn að reyna að benda á þetta lengi vegna þess að Hagsmunasamtökin hafa bent á það lengi sem og aðrir aðilar í þessu samfélagi að þetta er alveg ótækt.

Held ég þá áfram með athugasemdina við breytingartillöguna sem var of löng til að mega birtast í þingskjalinu:

Meðal þess sem 7. gr. tilskipunarinnar kveður á um er að aðildarríkin skuli tryggja, í þágu neytenda og samkeppnisaðila, að til séu réttar og árangursríkar leiðir til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í samningum seljenda eða veitenda við neytendur, þar á meðal ákvæði sem einstaklingar eða samtök, með réttmæta hagsmuni samkvæmt landslögum til að vernda neytendur, geti nýtt sér til aðgerða landslögum samkvæmt fyrir dómstólum eða þar til bærum stjórnsýslustofnunum til að fá úr því skorið hvort skilmálar, sem eru ætlaðir til almennrar notkunar, séu óréttmætir og geti þannig beitt viðeigandi og árangursríkum leiðum til að hindra áframhaldandi notkun slíkra skilmála. Eins og áréttað er í 5. tölulið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli E-25/13 verður jafnframt að túlka 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar þannig að aðildarríkjum beri að tryggja að óréttmætir skilmálar séu ekki skuldbindandi fyrir neytendur.

Næstu tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins sem ég fjalla um eru 98/27/EB og 2009/22/EB. Auk ákvæða tilskipunar 93/13/EBE kveður tilskipun 98/27/EB, um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, á um sérstök úrræði til að ná framangreindum markmiðum. Það eiga að vera til sérstök úrræði til að ná þeim fram. Í formála tilskipunarinnar eru þeir sameiginlegu hagsmunir sem henni er ætlað að vernda skilgreindir sem þeir hagsmunir sem ekki eru uppsafnaðir hagsmunir einstaklinga sem hafi orðið fyrir skaða vegna brots og að þeir hafi ekki áhrif á lögsókn af hálfu einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða vegna brotsins. Til að ná markmiðum um vernd þeirra hagsmuna skuli sá möguleiki vera fyrir hendi að veita samtökum sem gæta sameiginlegra hagsmuna neytenda þann rétt til lögsóknar sem greint sé frá í tilskipuninni, í samræmi við skilyrði í landslögum.

Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar er tilgangur hennar sá að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna er varða lögbannsaðgerðir sem miða að verndun sameiginlegra hagsmuna neytenda sem fjallað er um í þeim tilskipunum sem skráðar eru í viðauka hennar og varða neytendavernd með það fyrir augum að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins.

Samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríkin tilnefna til þess bæra dómstóla og yfirvöld á sviði stjórnsýslu til þess að úrskurða um dómsmál sem stofnað sé til af viðurkenndum stofnunum og samtökum sem leita eftir úrskurði þar sem krafist er stöðvunar eða banns við hvers konar broti og sem samkvæmt 3. gr. hafa þann tilgang að verja þá sameiginlegu hagsmuni sem fyrr getur um í 1. gr.

Samkvæmt því sem kemur fram í formála tilskipunar 2009/22/EBE hafði hinni upphaflegu tilskipun 98/27/EB þá nokkrum sinnum verið breytt í veigamiklum atriðum og til glöggvunar og hagræðingar bæri því að kerfisbinda hana. Ekki voru þó gerðar teljandi efnislegar breytingar á þessum reglum með hinni nýju tilskipun, heldur er að mestu leyti um tæknilega endurnýjun að ræða og aðallega uppfærslur á númerum sem vísa til ýmissa annarra tilskipana á sviði neytendaverndar.

Ég sé að ég á ekki eftir að ná að fara í gegnum þetta allt saman en þessi texti mun fylgja umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna við þetta frumvarp á Alþingisvefnum.

Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, var tilgangur þeirra að innleiða í íslensk lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Það er þetta sem við erum að ræða núna og það er það sem er verið að uppfæra að hluta til þess að gera hlutina skilvirkari og þurfa ekki alltaf að breyta lögunum þegar breytingar verða. Það er hins vegar ekki verið að innleiða í lög að tilgangi laganna sé náð.

Ég held lestrinum áfram.

Meðal þess sem kemur þar fram er að leitað hafi verið álits réttarfarsnefndar sem hafi talið nauðsynlegt að setja sérlög um þetta efni hér á landi, einkum vegna þess að með tilskipuninni væri stefnt að því að vernda heildarhagsmuni neytenda en ekki aðeins samanlagða hagsmuni þeirra sem brotið hafi beinst gegn en að baki eldri ákvæðum einkamálaréttar um aðildarhæfi búi áskilnaður um að félög eða samtök sem láti mál til sín taka hafi innan vébanda sinna félagsmenn sem sjálfir hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Í þessu ljósi yrði að telja verulegan vafa leika á því að íslensk lög veittu að óbreyttu þau úrræði sem krafist væri með tilskipun 98/27/EBE.

Einnig kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að tilskipunin geri þær lágmarkskröfur til aðildarríkjanna að þau veiti aðgang að þeim stjórnvöldum og dómstólum sem séu bærir til þess með skjótum hætti að stöðva brot á tilskipunum sem taldar eru upp í viðaukanum. Aðildarríkjum sé einnig skylt að tilnefna fyrir sitt leyti og viðurkenna með gagnkvæmum hætti þau stjórnvöld og samtök sem hafi heimild til þess að teljast bær um að höfða dómsmál, að undangengnu lögbanni ef þörf krefji, gegn ólögmætum athöfnum og þar með brotum á ákvæðum þeirra tilskipana sem frumvarpið taki til.

Á grundvelli laganna sem við erum að breyta, nr. 141/2001, hefur innanríkisráðherra tilnefnt þau stjórnvöld og samtök sem hafa heimild til að leita lögbanns eða höfða dómsmál með núgildandi auglýsingu nr. 1320/2011.

Það verður hægt að fara í dómsmál en það verða ekki til raunhæf úrræði eins og við eigum að hafa á Íslandi samkvæmt EES-samningnum til að krefjast lögbanns, til að stöðva þá óafturkræfu aðgerð að selja heimili fólks. Þetta er til að stöðva þá aðgerð meðan beðið er úrskurðar dómstóla. Það er akkúrat staðan í dag, það er búið að reyna að krefjast lögbanns. Því var hafnað þannig að nauðungarsölurnar halda áfram nema fram til 1. mars hjá þeim sem hafa sótt um leiðréttingu ríkisstjórnarinnar varðandi verðtrygginguna. Nauðungarsölurnar halda hins vegar áfram hjá hinum þó að það ætti að vera lögbann á þær. Það hefði átt að vera hægt að samþykkja lögbann meðan við bíðum eftir dómsmálinu ef við værum að uppfylla þessi skilyrði EES-samningsins.

Hér er stuttur kafli um framkvæmd reglna um lögbann til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Frá setningu laga nr. 141/2001 hefur aðeins tvisvar reynt á framkvæmd þeirra fyrir Hæstarétti Íslands, í málum nr. 636/2012 og 519/2013, þar sem í bæði skiptin var leitað lögbanns við beitingu tiltekinna skilmála neytendalána sem áður hafði verið skorið úr um að hefðu brotið í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í fyrra málinu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, m.a. í ljósi áðurnefndrar auglýsingar nr. 1320/2011, að ekki gæti orkað tvímælis að sóknaraðilar væru til þess bærir að bera upp hér á landi kröfu um lögbann til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001. Á hinn bóginn yrði að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., stæðu því í vegi að lögbann gæti náð fram að ganga. Í seinna málinu hélt sóknaraðili því fram að fyrrnefnd ákvæði ættu ekki við um slíkar kröfur en á það féllst Hæstiréttur ekki og taldi ákvæðið eiga við líkt og í fyrra málinu.

Ákvæðið á því við og er virkt í lögum. Það er það sem kom gott út úr þessu máli en það sem var slæmt er að Hæstiréttur sagði að hann gæti ekki heimilað lögbann á þessum grunni. Við ættum einmitt að vera að laga það í dag og ef breytingartillaga Pírata nær fram að ganga verður það lagað.

Samkvæmt umræddum 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna lögbannsbeiðanda tryggi þá nægilega.

Ef það er hægt að tryggja skaðabætur eftir á verður þetta ekki stöðvað. Evrópudómstóll er búinn að dæma, það er bannað að stöðva að mál fari í dómsmál áður en nauðungarsala fer fram, það er búið að dæma um það. Við eigum að vera með þannig skilyrði á Íslandi og lögbann á ekkert að virka.

Ég held aftur áfram með textann.

Burt séð frá einstökum málsatvikum virðist því sem skaðabótaréttur einstakra neytenda standi beinlínis í vegi fyrir því að lögbann verði lagt við brotum gegn heildarhagsmunum þeirra. Leiða má að því líkur að einstakir neytendur eigi oftar en ekki rétt á skaðabótum þegar brotið hefur verið gegn réttindum þeirra og er því vart útlit fyrir að lögbann til verndar heildarhagsmunum þeirra nái þá fram að ganga nema í tilfellum þar sem ekkert tjón hafi orðið. Vandséð er að þetta hafi verið raunverulegur tilgangur lagasetningarinnar enda eru svo þröng og nánast óyfirstíganleg skilyrði fyrir lögbanni til verndar heildarhagsmunum neytenda varla til þess fallin að tryggja skilvirka framkvæmd þessara reglna.

Einnig hefur reynt á framkvæmd úrræða samkvæmt lögum nr. 141/2001, þessum lögum sem við erum að breyta, á vettvangi Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála. Það er mál nr. 5/2013. Meðal þess sem reyndi á í því tilviki var það álitaefni hvort félagasamtök gætu byggt málsaðild í stjórnsýslumáli á tilnefningu samkvæmt umræddum lögum en áfrýjunarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þar sem úrlausn málsins hefði ekki áhrif á þau samtök yrði að vísa því frá nefndinni. Þannig virðist sú leið að beina erindum eða kvörtunum til Neytendastofu ekki hafa verið greiðfær til þess að ná fram banni til verndar heildarhagsmunum neytenda.

Í 1. gr. þeirra laga sem við erum að ræða hér er kveðið á um að stjórnvöld eða samtök sem tilnefnd hafa verið á grundvelli þeirra geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn tilteknum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög. Af þessu má ráða að megintilgangur lögbanns samkvæmt lögunum sé að stöðva eða koma í veg fyrir háttsemi sem brýtur gegn gildandi reglum sem hafa þann tilgang að vernda neytendur sem heild á allsherjarréttarlegum grundvelli frekar en að miða við einkaréttarlega hagsmuni einstakra neytenda enda er sérstaklega tekið fram að það sé ekki skilyrt að samtökin hafi sjálf höfðað slíkt mál eða félagsmenn í þeim orðið fyrir röskun á séreignarlegum réttindum sínum.

Í skýrslu framkvæmdastjórnar um beitingu tilskipunar 98/27/EB (COM/2008/0756) segir í 5. málsgrein að tilgangur lögbannsúrræðisins sé sá að gera mönnum kleift að stöðva ólögmæta viðskiptahætti til verndar heildarhagsmunum neytenda án tillits til þess hvort og hvaða tjón hafi orðið af völdum þeirra. Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu tilskipunar 2009/22/EB (COM/2012/0635 FINAL) segir jafnframt í kafla 3.3 að lögbannsúrræði samkvæmt reglum tilskipunarinnar sé óháð réttindum einstakra neytenda sem hafi orðið fyrir tjóni til að sækja sér skaðabætur fyrir það tjón. Af þessu verður ekki ráðið að einstaklingshagsmunir eða skaðabætur (Forseti hringir.) eigi að hafa áhrif á lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda, heldur skuli slíkt allsherjarúrræði þvert á móti vera (Forseti hringir.) fyrir hendi óháð einkaréttarúrræðum.

Ég legg til að við samþykkjum þetta, innleiðum þetta allt að fullu, samþykkjum breytingartillögu Pírata (Forseti hringir.) þannig að með lögbanni sé hægt að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að fólk missi heimili sín þangað til dómsmál fellur á Íslandi (Forseti hringir.) í byrjun eða um mitt næsta ár.