144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir málefnalega og góða ræðu. Það kemur ekki mjög á óvart að við erum sammála í þessu máli. Af því að ég er að tala um hagnað á Fríhöfninni þá tekst íslenska ríkinu samt sem áður að tapa á Fríhöfninni, það er tap á henni eftir því sem ég best veit.

Varðandi EFTA og hugsanlegan samning Evrópusambandsins og Bandaríkjanna þá erum við í samskiptum við þau ríki en þeir aðilar sem gefa okkur upplýsingar eru Bandaríkjamenn, ekki Evrópusambandið sem er svolítið magnað. Það er mikið hagsmunamál fyrir okkur ef þessi samningur yrði þvert á það sem menn halda. Það opnar mikla möguleika fyrir okkur. Ég næ ekki að fara í þessu andsvari yfir alla þá þætti en það er enginn vafi á að það eru miklir hagsmunir fyrir okkur ef þeir ná niðurstöðu sem er ekki víst. Alla vega er staðan ekki þannig núna. Þeir eru náttúrlega fyrst og fremst að takast á við tæknilegar viðskiptahindranir.

Ástæðan fyrir því að við erum í þeirri þvælu að menn þurfi að vera að líma eitthvað á bandarískar vörur, í raun sömu upplýsingar um efnisinnihald bara aðeins öðruvísi fram settar, er vegna þess að við erum að taka reglur EES og Evrópusambandsins og þetta eru bara tæknileg viðskipti til að koma í veg fyrir að bandarískar vörur komi inn á markað annars staðar en í Evrópu. Menn eru í raun hættir í tollunum. Það eru tæknilegar viðskiptahindranir sem menn nota til að ýta vörum frá.

Ég er sammála hv. þingmanni að fella niður tolla einhliða. Það lokar ekki á að við getum alltaf sett þá á aftur ef við lendum í viðskiptadeilum en það er enginn vafi að það hjálpar fátækari fjölskyldum. Ég vek athygli á því að í frumvarpinu er könnun á því hverjir kaupa ýmsar vörur á landinu. Og hverjir eru það fyrst og fremst sem kaupa föt nær eingöngu hér? Jú, það eru fátækar fjölskyldur, það eru tekjulágar fjölskyldur.