144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

útreikningur nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

18. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

Þingsályktunartillagan fjallar um að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja vinnu við útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili og að vinnsla við útreikningana verði unnin í samráði við hlutaðeigandi aðila. Hlutaðeigandi aðilar geta meðal annars verið frá ríki og sveitarfélögum, stofnunum er vinna með fjárhagsvanda heimilanna, verkalýðshreyfingunni og jafnvel þeir sem berjast fyrir bættum hag heimilanna. Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir þá aðila sem geta komið að vinnunni og er eingöngu uppástunga flutningsmanna, en það er í höndum hæstv. ráðherra að kalla til þá sem eiga að koma að vinnunni.

Í vinnslu við útreikning nýrra neysluviðmiða skal taka tillit til þeirra þátta sem núverandi neysluviðmið byggjast á. Núverandi neysluviðmið byggjast á grunnviðmiðum og dæmigerðum viðmiðum. Dæmigerð viðmið byggjast á 12 útgjaldaflokkum, það eru m.a. flokkarnir matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds. Annar flokkur eru föt og skór. Sem dæmi um enn annan flokk er heimilisbúnaður. Einnig er þarna að finna flokka eins og fjarskipti, dagvistunargjöld og kostnað vegna ökutækja.

Í raun er að finna þarna alla þætti er koma að rekstri heimila fyrir utan húsnæðiskostnaðinn sjálfan. Í þingsályktunartillögu þessari er ætlað að taka húsnæðiskostnað með inn í reikninginn. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan þann kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis. Mikilvægt er í þessu samhengi að horft verði til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Gagnlegt gæti verið að sett yrði upp dæmi sem hægt væri að miða við. Dæmið gæti byggst upp á einstaklingum og mismunandi fjölskyldustærðum sem væri í mismunandi búsetuformum og á mismunandi búsetusvæðum. Eins og við gerum okkur mörg grein fyrir getur fastur kostnaður vegna húsnæðis verið mismunandi eftir byggðasvæðum. Til dæmis er raforkukostnaður nokkuð hærri á köldum svæðum en á höfuðborgarsvæðinu. Raunhæft væri að setja þann kostnað inn í eitt af dæmunum.

Í dag eru grunnviðmið fyrir einstaklinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu 99.758 kr., en samkvæmt dæmigerðum viðmiðum eru þau 234.564 kr. Grunnviðmið fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem býr á höfuðborgarsvæðinu eru 332.430 kr., en samkvæmt dæmigerðum viðmiðum eru þau 546.543 kr.

Eins og fram kemur er mikið bil milli grunnviðmiða og dæmigerðra viðmiða og húsnæðiskostnaður inni í hvorugu dæminu. Grunnviðmiðin, sem eru lægri talan í þessum útreikningum, eiga að gefa vísbendingu um hver lágmarksútgjöld eru í ákveðnum útgjaldaflokkum. Kallað hefur verið eftir nýjum neysluviðmiðum sem byggja á könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Kallað hefur verið eftir því að ferlið við útreikning viðmiðanna sé gagnsætt og húsnæðiskostnaður sé tekinn með inn í dæmið, því að við vitum auðvitað að allir verða að hafa þak yfir höfuðið.

Ýmsir aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar og baráttumenn fyrir bættum hag heimila í landinu hafa komið að máli við mig og óskað eftir nýjum útreikningum.

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Með tillögu þessari er lagt til að ráðist verði í að endurskoða útreikning neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Vakin er athygli á því að það er yfirlýstur tilgangur með smíði neysluviðmiða að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum til hliðsjónar við áætlun eigin útgjalda. Auk þess geta slík viðmið komið að notum við fjárhagsráðgjöf fyrir einstaklinga og verið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Litið hefur verið svo á að neysluviðmið séu ekki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris. Sníða þarf vankanta af núverandi neysluviðmiðunum til að þau geti orðið nákvæmur mælikvarði á hvað telst nægjanlegt til framfærslu fjölskyldu.“

Í núverandi neysluviðmiðum er húsnæðiskostnaður ekki innifalinn og byggist það á þeim rökum að kostnaður við húsnæði sé svo breytilegur að ekki sé rétt að gefa út viðmið í þeim efnum og að betra sé að fjölskyldur bæti raungjöldum við hin opinberu viðmið. Lagt er til í þessari tillögu að inn í neysluviðmiðin verði settir allir þættir sem snúa að húsnæðiskostnaði. Þar þarf að setja inn mismunandi dæmi eftir því um hvaða búsetuform er að ræða, staðsetningu húsnæðis og aðra þætti er skipta máli. Með hugtakinu húsnæðiskostnaður í tillögunni er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.

Lagt er til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna. Raunframfærslukostnaðurinn verði nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Reiknilíkan útreikninganna verði gert opinbert, eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við og má þar nefna Danmörk, Svíþjóð og Noreg.

Herra forseti. Það er morgunljóst að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað mikið undanfarin ár og hefur það haft áhrif á íslensk heimili. Það er því mat flutningsmanna tillögunnar, sem eru nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins, að afar brýnt sé að vinna við útreikning nýrra neysluviðmiða og fari útreikningarnir fram á þessu þingi sem nú er, þ.e. 144. þingi.

Nánari upplýsingar um neysluviðmiðin er að finna á vef velferðarráðuneytisins.

Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til afgreiðslu í velferðarnefnd Alþingis.