144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Það má segja að þessi þingsályktun kallist á við drauma framsóknarmanna um ljós í fjós. Hún er í raun skrifuð til þess að þrýsta á að það gerist eitthvað. Þetta var eitt af loforðum framámanna flokksins fyrir kosningar. Ég hef aftur á móti ekkert heyrt um það rætt. Ég ræddi þetta við formann flokksins þegar verið var að undirbúa hvernig ríkisstjórnin yrði skipuð. Hann ræddi við formenn allra flokka. Ég hef aftur á móti ekkert heyrt meira um þetta. Nú hefur þingið setið í meira en ár þannig að ég er að hvetja ríkisstjórnina til dáða og það væri frábært ef þingheimur gæti sameinast um að þetta væri forgangsmál. Því ef við erum ekki búin að lögfesta jafnt aðgengi að netinu eða nethlutleysi er mjög hætt við því að við verðum fórnarlömb lagasetningar í Bandaríkjunum eins og svo oft gerist út af því að við búum í heimi þar sem netið er óháð landamærum. Þannig að þetta fjallar um það og aðalfókusinn er á jafnt aðgengi út frá nethlutleysi.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta. Það stendur yfir mikil barátta í Bandaríkjunum núna til að fyrirbyggja að nethlutleysi verði að lögum. Ef við tryggjum að það sé bannað að mismuna fólki eða fyrirtækjum eftir því hvernig upplýsingarnar eru, byrgjum við brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.