144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:34]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu og tek hana sem hvatningu, og ekki veitir af. En ljós í fjós var ekkert djók hjá okkur framsóknarmönnum.

Nú er starfandi starfshópur um endurskoðun á alþjónustukvöðum á vegum innanríkisráðuneytisins. Sá hópur mun skila af sér í næsta mánuði. Þar er verið að endurskoða þessa alþjónustukvöð. Í fjarskiptalögum í dag er þessi alþjónustukvöð 128 kílóbæt. Sú tala er náttúrlega bundin af þessum kopar, þessum gömlu símalínum sem við höfum, þannig er bara staðan. Þessi hópur mun skila af sér og við erum að tala um kröfurnar í dag, við erum að tala um einhver megabæt eða jafnvel gígabæt. En við getum ekki sett þetta í lög fyrr en við erum búin að ljósleiðaravæða landið. Það er alveg rétt, sveitarstjórnir eru farnar að leggja þetta, þau sveitarfélög sem hafa efni á þessu, en kvaðirnar eru náttúrlega netvæðing, að geta verið sæmilega netvædd.

Eins og fram hefur komið hefur ýmislegt gengið á í sumar, meðal annars skiluðu sms-skilaboð sér ekki til Fjarðabyggðar þegar verið var að vara þar við mengun út af eldgosi. En við þurfum kannski að gera meira en bara netvæðast, því að mikið álag kom þá á Neyðarlínuna vegna þess að þá var fólk að hringja og spyrja hvernig það ætti að opna sms-in. Það var ekki bara það að sms-in skiluðu sér ekki, heldur kunni stór hluti af þeim sem fengu sms-in ekki að opna þau, þannig að þetta snýst kannski líka um að fræða fólk.

Það má kannski segja að það hafi verið feill að selja Símann. Fjarskiptafélög í dag viðurkenna að þau fjárfesta ekki í ljósleiðurum í dreifbýlinu, því að þau munu aldrei fá það greitt. Þarna þarf ríkið að koma til eða einhver stuðningur. Þá er bara spurningin: Hvernig á sá stuðningur að vera? Allt kostar þetta peninga. Gróflega áætlað skilst mér að það geti kostað 6–10 milljarða að ljósleiðaravæða landið. En það grátlega við þetta er að hér á höfuðborgarsvæðinu er offjárfestingin búin að vera svo mikil að þar er verið að tala um að minnsta kosti 10 milljarða ef ekki meira sem hefur verið offjárfest hér á Reykjavíkursvæðinu, höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að leggja hér nokkra ljósleiðara.

Það eru því innviðirnir, grunnnetið getum við sagt, sem við þurfum að byggja upp. Ég held að það séu nú flestir sammála um það, fáist peningar í það. Hringtenging á Vestfjörðum — nú eru fjarskiptafélögin sem þjóna Vestfjörðum að tala saman og reyna að finna einhvern flöt á því að sameinast um grunnnetið, innviðina, og hugmyndin er þá væntanlega að samkeppni verði í efri lögum í þessum fjarskiptum. Ég get alla vega upplýst hv. þingmenn um að þetta er í gangi, það er í gangi vinna.

Ég fagna þessari hvatningu og er svo sem ekkert hissa þó að hún komi frá Pírötum. Þeirra einkenni er nú internetið og internetvæðing, og ekki veitir af að upplýsa okkur, þau eldri sem hér eru, um þau góðu mál.