144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[11:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt inn beiðni um að eiga sérstaka umræðu við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um kennitöluflakk. Ég þakka ráðherranum fyrir skjót og góð viðbrögð við að mæta hér til umræðunnar.

Kennitöluflakk er hvergi skilgreint í lögum en svo allir átti sig á því hvað sá sem biður um umræðuna á við þá tala ég um kennitöluflakk þegar einstaklingar skilja félög, með takmarkaðri persónulegri ábyrgð eigenda, eftir eignalaus með mikið af skuldum eða ógreiddum opinberum gjöldum en flytja eignirnar yfir í ný félög og komast þannig hjá skuldunum. Þetta kennitöluflakk kostar lánveitendur sem og ríkissjóð, og þar af leiðandi skattgreiðendur alla, háar fjárhæðir á hverju ári. Auk þess hefur þetta slæm áhrif á samkeppnisstöðu á markaði. Þess vegna held ég að við séum öll hér inni sammála um að reyna að finna leiðir til að stemma stigu við þessum vanda og átta okkur á því hvernig hægt er að takast á við að breyta þessari stöðu.

Glöggir þingmenn sem aðrir hafa tekið eftir því að hæstv. ráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina minnisblað þann 3. september 2013 um að setja af stað vinnu í ráðuneytinu við að kortleggja þennan vanda og reyna að koma fram með leiðir til að grípa inn í. Þá er rétt að beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvernig sú vinna gangi, hvernig gangi að kortleggja umfangið, til hvaða aðgerða hafi þegar verið gripið af hálfu ríkisstjórnarinnar og hvaða leiðir séu helst til skoðunar af hálfu ráðherrans og síðast en ekki síst hvenær gert sé ráð fyrir að niðurstaða þessarar vinnu liggi fyrir.

Manni hefur fundist það af umræðunni að enginn sé að gera neitt. Það er rangt. Ríkisstjórnin er með þetta mál í ferli og er rétt að upplýsa okkur um það hvernig gangi.

Þá ætla ég að velta upp nokkrum leiðum sem menn hafa bent á að hægt sé að fara til að sporna gegn kennitöluflakki. Það er í fyrsta lagi sú leið að færa fleiri opinber gjöld undir persónulega ábyrgð eigenda. Það er leið sem hefur verið í umræðunni, þ.e. að gera eigendur og stjórnendur persónulega ábyrga fyrir fleiri opinberum gjöldum en nú er gert í löggjöfinni. Við erum með nokkrar tegundir af formi sem hægt er að nýta til að stofna fyrirtæki. Einkafirmu og sameignarfélög, hægt er að stofna slík félög en þar er persónuleg ábyrgð á skuldum félagsins. Það eru því ekki þau félög sem við erum að tala um hér. Við erum hér að tala um hlutafélög og einkahlutafélög með takmarkaðri ábyrgð. Þar er um að ræða refsiábyrgð eigenda gagnvart ákveðnum opinberum gjöldum, svokölluðum rimlagjöldum, virðisaukaskattinum og staðgreiðslunni, en engu að síður eru önnur opinber gjöld þar fyrir utan sem og það tjón sem lendir á Ábyrgðasjóði launa við gjaldþrot. Það hefur verið í umræðunni á ýmsum stöðum, í atvinnulífinu og hjá launþegahreyfingunni, hvort þetta sé leið sem hægt er að fara. Væri fróðlegt að vita hver afstaða ráðherrans er til þess. Reglan varðandi frelsi og viðskiptafrelsi tel ég að sé þar líka undir. Þú átt að njóta ákveðins frelsis meðan þú skaðar ekki aðra. Það er hinn gullni meðalvegur sem við verðum að reyna að feta hér.

Önnur leið sem hægt væri að fara er að breyta reglum varðandi tryggingar þannig að þeim sem ætla sér að stofna einkahlutafélög eða hlutafélög verði gert að leggja fram tryggingu sem ríkissjóður varðveitir. Þetta er leið sem bent hefur verið á og sú trygging yrði þá endurgreidd ef félagið mundi lifa í ákveðið mörg ár. Að öðrum kosti mundi þessi trygging renna til ríkissjóðs upp í ógreiddar kröfur við gjaldþrot. Þessi leið hefur þann kost að þá er tryggingin til staðar en gallarnir eru augljósir. Þá er í fyrsta lagi ekki hægt að stofna slík félög nema þú eigir talsvert mikið af fjármagni, sem fæstir eiga. Ég tel að það mundi standa nýsköpun mjög fyrir þrifum og það tel ég að við viljum ekki gera.

Önnur leið sem hægt væri að fara væri að hafa ákveðin fjöldatakmörk á því hversu oft viðkomandi einstaklingur má stofna félag sem fer í gjaldþrot. Það er sami hængur þar á að það gæti þá takmarkað frelsið til að stofna fyrirtæki og við gætum þar með misst af frábærum framtíðarvaxtarsprotum á Íslandi.