144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram það sem ég er ánægður með. Ég er ánægður með það að menn séu ekki að gera sérsamninga og setja jafnvel sérlög um hverja einustu fjárfestingu sem útlendingum dettur í hug að fara í á Íslandi. Þannig hefur það verið hingað til og alltaf skulu þessi erlendu fyrirtæki njóta betri kjara en innlend fyrirtæki, sem mega bera klyfjarnar af rekstri ríkissjóðs. Þannig að það er jákvætt.

Að öðru leyti er þetta óskaplega neikvætt, ég kemst eiginlega ekki í gegnum þetta, að lesa um byggðakort, byggðastefnu, styrki og aðstoð. Það sem er kannski athyglisverðast er það sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson benti á um arðsemi. Það stendur í d-lið 5. gr., að það þurfi að sýna fram á, með leyfi forseta, „að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi“, þ.e. það á að vera alveg á mörkunum að verkefnið beri sig. Ef ekki er veittur styrkur þá ber það sig ekki. Þá borgar sig ekki að fara í þetta. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt, frú forseti, ótrúlegt. Við ætlum að laða til landsins rekstur sem getur ekki borið sig og menn mundu ekki fara í þann rekstur ef þeir ættu að borga það sem innlend fyrirtæki þurfa að borga. Það er ekki auðvelt fyrir mig að lesa þetta.

Í 7. gr. er sagt að ívilnun skuli vera að hámarki 15% o.s.frv. Ég skil ekki af hverju er ekki bara sagt að fyrir stórfyrirtæki skuli ívilnun vera 15%, fyrir meðalstór 25% og fyrir lítil 35%.

Þá kemur mjög merkilegur punktur, þetta á að gilda fyrir innlend fyrirtæki líka, þetta er ekki bara fyrir erlend fyrirtæki. Innlend fyrirtæki geta því notið þessa og það er jákvætt, frú forseti.

Ég fór að máta þetta við alls konar fyrirtæki eins og t.d. sjávarútvegsfyrirtæki. Það getur verið að eitthvert sjávarútvegsfyrirtæki sem ber sig ekki í venjulegu skattumhverfi falli undir svona styrk, því flest eru nú sjávarútvegsfyrirtæki úti á landi og falla inn í þetta ágæta byggðakort sem Evrópusambandið samþykkir og er skilyrði fyrir byggðaaðstoð.

Þegar maður les frumvarpið í gegn er þetta nánast allt saman einhvers konar sovétkerfi, ég nota það orð, til að styrkja eitthvað sem ekki gengur.

Helst vildi ég að við settum okkur það mark að þessir styrkir og það góða sem á að gera með frumvarpinu gildi fyrir öll fyrirtæki í landinu þannig að þau geti farið að blómstra og jafnvel að starfa. Sum lepja dauðann úr skel og standa varla undir þeim byrðum sem ríkið leggur á þau. Það hefði verið miklu betra. Það mætti kannski bæta við ákvæði um að stefnt skuli að því að innlend fyrirtæki njóti þessara ívilnana þegar fram líða stundir, svo sem eftir þrjú eða fjögur ár af því að ég er svo bjartsýnn, frú forseti.

Ég hef nefnt hér kosti við frumvarpið eins og þá að með þessu er ekki alltaf verið að gera nýja og nýja samninga eða setja meira að segja sérlög um fyrirtæki, en ókostirnir eru því miður svo margir að það verður erfitt að sannfæra mig um að styðja þennan óskapnað.