144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[16:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka að þetta frumvarp er til komið vegna aðildar okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ég vakti athygli á því að það er komið í kæruferli við EFTA-dómstólinn, þannig að okkur ber skylda til þess að innleiða það.

Þetta leiðir hugann að Evrópuumræðunni almennt og því sem við höfum oft rætt hér á vettvangi þingsins um það hvenær og á hvaða stigi máls við komum inn með athugasemdir um hluti sem kunna að varða íslenska hagsmuni. Það má vel vera að það hefði verið hægt að færa fyrir því rök á fyrri stigum að þessi tilskipun yrði ekki tekin upp hér, en nú erum við komin á þennan stað vegna þess að við gerðum það ekki á þeim tíma.

En ég held samt að það sem þingmaðurinn vekur hér athygli á sé í rauninni ekki það sem tilskipunin snýst um. Hér er til að mynda verið að útvíkka gildissviðið þannig að í stað þess að tilskipunin nái bara til ísskápa og raftækja og þess háttar vara nái hún líka til vöru sem leiðir til þess, á byggingarstigi, að við nýtum orkuna betur. Þá verður betri einangrun, betri gluggar. Það er ekki verið að tala um það að nú þurfum við öll að fara að skipta um glugga og einangra húsin okkar upp á nýtt, heldur er verið að samræma reglur og hvetja til notkunar á vörum sem nýta orkuna betur. Ég held að það sé í sjálfu sér göfugt markmið sem við getum tekið þátt í að keppa að. Og sú staða er komin upp að við erum skuldbundin til þess að innleiða þessa tilskipun og því hefðu þessar athugasemdir þurft að koma fram fyrr.