144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., með síðari breytingum. Hér er líkt og í því máli sem við ræddum á undan þessu verið að tryggja samræmi og víkka út gildissviðið þannig að það nái ekki aðeins yfir vörur eða heimilistæki sem nota orku heldur að teygja það út yfir vörur sem tengjast orkunotkun.

Hér er einnig verið að innleiða mikla refsigleði því að sektir gegn brotum á þeirri upplýsingaskyldu sem hér á að leiða í lög skulu nema allt að 500 þús. kr. á dag. (Iðnrh: Lögreglan var með þetta áður.) Á tíu dögum eru það 5 millj. kr. fyrir að hafa ekki veitt upplýsingar um eitthvað sem okkur langar ekki einu sinni að vita. Það er engin sérstök ástæða til að vera með slíka refsigleði. Ég vona að hv. atvinnuveganefnd komi einhverju viti í þetta. Þetta er í engu samræmi við það tjón sem hægt er að baka með því að upplýsa ekki um það hvort einhver vara sé í orkuflokki A eða B eða draga þessa upplýsingagjöf í einn dag. Ég skil þetta ekki. Ég má kannski beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé áskilnaður Evrópusambandsins í þessari tilskipun að sektin nemi allt að 500 þús. kr. á dag, til að knýja fram upplýsingar um það hvort varan sé þetta mörg vött eða ekki. Ég vona að við séum hér ekki á óheillabraut.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrósaði hæstv. ráðherra fyrir þann dugnað að innleiða allar þessar íþyngjandi reglugerðir yfir þjóðina þegar honum og hans ríkisstjórn hefði tekist að draga það. Ég heyrði ekki betur en að hann væri að gefa góð ráð um hvernig hægt væri að halda áfram að draga þetta. Ég vil hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir það og þakka honum fyrir öll góð ráð í þessu efni.

Ég vil vara við því að innleiða hér mjög íþyngjandi ákvæði sem gengur þvert á þann tilgang gerðarinnar sem er ýjað að, að tryggja samræmi í merkingum. Það er í raun verið að reisa tæknilega viðskiptahindrun þannig að íslenskir innflytjendur á vörum, t.d. vörum utan Evrópska efnahagssvæðisins, frá Kína, Asíulöndum, Bandaríkjunum eða löndum Mið- og Suður-Ameríku, geta lent í stappi við að flytja þær inn. Að sjálfsögðu eru einhverjir menn í Suður-Kóreu sem framleiða hugsanlega mjög vandaða og góða vöru ekki tilbúnir til að búa til upplýsingar á íslensku um það hvað varan er mörg vött, hver orkunotkunin er eða hvaða hávaða hún framleiðir.

Ég held, ef það er einhver leið til þess, að við eigum að reyna að innleiða þetta þannig að það valdi sem allra minnstu tjóni og liður í því getur ekki verið að hafa sektarupphæðir allt upp í 500 þús. kr. á dag.