144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ágætt hjá hv. flutningsmönnum að leggja þetta mál fram sjöunda sinni og gefa nefndum Alþingis færi á því að fjalla málefnalega og ítarlega um þessar hugmyndir. Ég verð þó að segja að það vekur mér býsna mikla furðu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skuli hafa kosið að gera þetta eitt af þremur helstu forgangsmálum sínum á því þingi sem standa á í haust og allan vetur. Þegar við komum saman til þings að hausti fá þingflokkar að leggja áherslu á ákveðin mál sem þeir telja brýnt að njóti forgangs í umfjöllun í þinginu og þó að þetta sé út af fyrir sig mál sem skiptar skoðanir eru um og sjálfsagt að ræða og taka til skoðunar tekur maður eftir því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skuli kjósa að gera þetta að einu helsta forgangsmáli sínu. Kannski í fyrsta lagi vegna þess að tilfellið er að vínbúðirnar sem nú starfa hafa auðvitað veitt ágæta þjónustu og ástæða til að taka það fram að starfsfólk þess ágæta fyrirtækis hefur staðið sig með sóma í þeirri þjónustu sem það hefur veitt. En kannski eru ýmis meira aðkallandi mál, hefði maður haldið, til að takast fyrst á við hér á þessum vetri en þetta. Maður hefði haldið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sæi stærri og meiri knýjandi vandamál í íslensku samfélagi en þetta, sama hversu góðra gjalda vert málið kann að öðru leyti að vera.

Sé það svo að Sjálfstæðisflokkurinn telji að atvinnufrelsi, verslunarfrelsi og frjáls samkeppni á neytendamarkaði sé þetta gríðarlega mikla forgangsmál sem þetta lýsir spyr maður sig hvers vegna flokkurinn byrjar ekki á mjólkurvörunum. Eins og þingheimur veit fæst þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki til þess að fella sölu á mjólk í verslunum undir samkeppnislög og stendur einhuga vörð um einokun eins aðila á þeim þætti neytendamarkaðar en forgangsraðar síðan verslunarfrelsi í áfengismálum með þessum hætti. Það er sérstakt, skulum við segja, svo ekki sé meira sagt.

Hitt er síðan um þetta mál að segja að hér takast á tvö sjónarmið, bæði út af fyrir sig réttmæt, annars vegar sjónarmiðið um atvinnufrelsi, verslunarfrelsi, frjálsa samkeppni, um það að sölu á vöru og þjónustu sé best fyrir komið á frjálsum markaði, einkum þegar um neytendavörur er að ræða, að framtak einstaklinga og frjáls markaður sé best til þess fallinn að finna bestu lausnirnar til þess að miðla vörum hagkvæmt og eftir óskum fólks til þess. Á hinn bóginn eru síðan lýðheilsusjónarmiðin, þau sjónarmið að áfengi og áfengisvandinn sé skaðlegur fólki, sé heilbrigðisvandi í sjálfu sér. Verkefni þeirrar nefndar sem málið fær til umfjöllunar verður fyrst og fremst það að vega hvort sá ávinningur sem felst í því að auka frjálsræði í verslun með áfengi, innleiða frjálsa samkeppni og verslunarfrelsi á þessu sviði sé meiri en þeir annmarkar sem fylgja breytingunum í auknum áfengisvanda. Til þess þarf nefndin að fá gott rúm til þess að fá einfaldlega álit færustu sérfræðinga þar um. Ég fagna yfirlýsingu 1. flutningsmanns málsins úr ræðustól áðan þegar hann dregur þá markalínu að í hans huga sé það skilyrði fyrir því að málið verði að lögum að það leiði með engum hætti til aukinnar unglingadrykkju. Þá er það augljóst viðfangsefni nefndarinnar í framhaldi af þeim yfirlýsingum flutningsmannsins að fara yfir álit færustu sérfræðinga þar um og fara ekki áfram með málið nema að þau markmið sem 1. flutningsmaður hefur lýst náist tryggilega fram.

Það er svo rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað eru uppi ýmis sjónarmið um málið, bæði út frá búsetu manna og kynslóðum. Það er rétt að yngra fólk er áhugasamara um þetta en eldra fólk. Við í Samfylkingunni þekkjum það ágætlega þar sem ungir jafnaðarmenn hafa ályktað um þörfina fyrir aukið frelsi í þessum efnum, svo dæmi sé tekið. Ég verð þó að leyfa mér að efast um að þessi útfærsla hv. þingmanns og meðflutningsmanna hans á breytingunum sé í samræmi við hin yfirlýstu markmið. Ég get út af fyrir sig skilið þá hugmynd að vilja innleiða verslunarfrelsi með að minnsta kosti bjór og léttvín, ég held að sterkt vín sé alltaf sérstök umræða og sjálfsagt að taka hana, en að það eigi bara að gilda í stórum búðum en ekki litlum finnst mér að minnsta kosti athyglisvert sjónarmið. Ef verslunarfrelsi, atvinnufrelsi og frjáls samkeppni er á annað borð markmið flutningsmannanna er sú fyrirætlan í andstöðu við þau yfirlýstu markmið.

Það vekur líka athygli mína ef afgreiðslutíminn á ekki að vera annar en sá sem er í vínbúðunum, ef ætlun manna er að hafa verslunarfrelsi hluta úr sólarhringnum en að deildum í verslunum sé lokað á tilteknum tíma. Ég veit ekki alveg hvort það þjónar hinum yfirlýstu markmiðum um frjálsa samkeppni, um val neytenda, um þetta verslunar- og atvinnufrelsi sem flutningsmenn hafa lýst sem markmiði sínu í málinu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að í nefndarstarfinu sé vel farið yfir það með hvaða hætti þetta mál er hugsað og líka er ástæða til þess að fara sérstaklega yfir annars vegar bjór og léttvín og hins vegar sterkt vín. Eins og fram kom í ræðu flutningsmanns mótast afstaða að minnsta kosti hluta landsmanna klárlega af því hvort um væri að ræða einvörðungu léttvín og bjór eða sömuleiðis sterka vínið.

Að því sögðu vonast ég til þess að hv. nefnd fái þann tíma og tækifæri sem hún þarf til að fara vandlega yfir málið og legg áherslu á að hér er um að ræða breytingu á lögum sem fyrst og fremst falla undir efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. lög um aukatekjur ríkissjóðs og lög um Áfengis- og tóbaksverslunina. Ég hygg að þriðju lögin af þeim fernum sem verið er að breyta með frumvarpi þessu séu sömuleiðis á verksviði efnahags- og viðskiptanefndar. Ef hér væri um að ræða stjórnarfrumvarp kæmi það klárlega frá fjármála- og efnahagsráðherra og væri vísað til efnahags- og viðskiptanefndar við núverandi nefndaskipan á Alþingi. Þó að annar háttur kunni að hafa verið hafður á áður en menn gerðu breytingar á nefndaskipan í þinginu og skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu varðar þetta mál klárlega verslunarfrelsi og viðskiptin eru í efnahags- og viðskiptanefnd. Sömuleiðis varðar þetta tekjuöflun ríkissjóðs, mjög mikilvægan þátt í henni, og ríkisfyrirtækis sem í rekstri er. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt að málið gangi til þeirrar ágætu nefndar.