144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svörin og að taka undir það meginsjónarmið að hér sé um lýðheilsumál að ræða. Ég legg áherslu á að mér finnst það skipta máli, mér finnst það ekki vera hégómamál eða nokkuð sem við eigum að leiða hjá okkur hvert þetta mál fer til umfjöllunar. Það skiptir máli.

Þess vegna leyfi ég mér að nota þetta tækifæri í andsvari við hv. þingmann til að auglýsa eftir viðhorfum annarra hv. alþingismanna til þess í hvaða farveg þetta mál eigi að fara. Við þurfum að ræða það.

Ég tók eftir því í inngangsræðu hv. framsögumanns með frumvarpinu að hann vék mjög að lýðheilsusjónarmiðum. Ég var ekki sammála þeim niðurstöðum sem hv. þingmaður komst að, en það kann að vera eðlilegur skoðanaágreiningur á milli okkar um það efni. Ég vek (Forseti hringir.) hins vegar athygli á því að það var sá farvegur sem hann taldi eðlilegast, að því er (Forseti hringir.) mér fannst hann ræða málið.